Taktur miðstöð Parkinsonsamtakanna hefur opnað í Lífsgæðasetri St. Jó í Hafnarfirði. Þar verður boðið upp á þjónustu við fólk með parkinson og skylda sjúkdóma og aðstandendur þeirra. Dagskrána má finna á hér en upplýsingar um ráðgjöf og stuðning má finna hér.

Hér fyrir neðan er hægt að sækja skjal með upplýsingum um þjónustuna í Takti.

Taktur – september 2021
Taktur – september 2021

14. september 2022
Andri sjúkraþjálfari hjá Takti sjúkraþjálfun tók í dag á móti fyrstu hópunum í sérhæfða sjúkraþjálfun. Taktur sjúkraþjálfun er staðsett á 1. hæðinni í Lífsgæðasetri St. Jó en þar er boðið upp á sérhæfða þjónustu fyrir fólk með parkinson og skylda sjúkdóma. Félagsmenn í Parkinsonsamtökunum geta nýtt sér aðstöðu og þjónustuna í Takti á 3. hæðinni í Lífsgæðasetri St. Jó en dagskrána má finna hér.
Aðstendendum stendur einnig til boða að nýta aðstöðina á 3. hæðinni en þar er biðstofa og kaffistofa og slökunarherbergið Kyrrð sem má alltaf nýta þegar ekki er skipulögð dagskrá þar.

Þau sem vilja skrá sig á biðlista í sjúkraþjálfun hjá Andra geta fyllt út formið hér.

28. júní 2022
Í sumar verður boðið upp á námskeiðið Iðjuþjálfun og útivist. Námskeiðið fer fram daglega dagana 11.–14. júlí kl. 13:00–14:30 í Takti á 3. hæð í Lífsgæðasetri St. Jó. Nánari upplýsingar og skráning hér.

Taktur sjúkraþjálfun opnar í lok sumars en Andri Þór Sigurgeirsson og Sif Gylfadóttir eru sjúkraþjálfarar hjá Takti og sjá um hópþjálfun og einstaklingstíma. Tekið er á móti skráningu á biðlista hér.

Parkinsonsamtökin og Taktur verða lokuð vegna sumarleyfa frá 1. júlí til 15. ágúst en hægt er að senda tölvupóst á parkinson@parkinson.is og við svörum við fyrsta tækifæri.

18. mars 2022
Dagskráin í Takti er farin að taka á sig mynd. Námskeiðið Hugur og hönd hjá Guðrúnu iðjuþjálfa er farið af stað og nýtt námskeið hjá henni hefst í apríl, raddþjálfunarnámskeið hefst 21. mars og jóganámskeið byrjar fyrir páska.

Borðtennis er mjög vinsæll í endurhæfingu og er á dagskrá alla föstudaga kl. 11-12 í Íþróttahúsinu Strandgötu. Ráðgjafaþjónustan er til staðar og hægt að panta viðtöl hjá fagfólki sem veitir nauðsynlegan stuðning fyrir fólk með parkinson, skylda sjúkdóma og aðstandendur. Fræðslufundir, Parkinsonkaffi, spilastundir o.fl. er auglýst í viðburðadagatalinu og  hægt að fylgjast með næstu námskeiðum og viðburðum þar.

Framkvæmdir halda áfram á 1. hæðinni þar sem Taktur sjúkraþjálfun verður staðsett. Búið er að skipa um allar lagnir og nú er uppbyggingin hafin. Hægt er að skrá sig á biðlista hjá Takti sjúkraþjálfun og Andri mun fljótlega hafa samband við alla sem eru á biðlistanum.

14. febrúar 2022
Framkvæmdir eru enn í fullum gangi í Lífsgæðasetri St. Jó en á 1. hæðinni þar sem sjúkraþjálfunin verður hafa framkvæmdir því miður tafist nokkuð vegna meiri lagnavinnu en gert var ráð fyrir í byrjun. Okkur þykir afar leitt að tilkynna að hópþjálfunin getur ekki byrjað í mars eins og vonir stóðu til. Nú er áætlað að við fáum húsnæðið afhent í apríl og það eru allir að vinna hörðum höndum að ná því markmiði. Á meðan iðnaðarmennirnir okkar eru að vinna að endurbótunum erum við að nýta tímann til að panta tækjabúnað og undirbúa opnun.

Andri Þór sjúkraþjálfari mun hafa samband við þau sem eru á biðlistanum um leið og hann byrjar að raða niður í hópana. Við hlökkum til að taka á móti ykkur í Takti sjúkraþjálfun um leið og framkvæmdum er lokið og við getum opnað Takt sjúkraþjálfun í glæsilegu húsnæði.
 
Við biðjum þau sem eru á biðlistanum og ætla að skipta yfir í Takt, að hætta ekki í þjálfun annars staðar fyrr en Andri hefur úthlutað tíma hjá Takti sjúkraþjálfun.

Aðrir dagskrárliðir í Takti eru að skýrast með fræðslufundum, námskeiði, parkinsonkaffi o.fl. nú þegar létt hefur verið á samkomutakmörkunum. Alla dagskrárliði má finna á viðburðardagatalinu.

2. febrúar 2022
Við erum byrjuð að auglýsa dagskrána og munum fara hægt af stað með viðburði fyrir minni hópa á meðan samkomutakmarkanir eru í gildi. Hægt er að skoða auglýsta dagskrá á viðburðadagatali og á Facebook.

27. janúar 2022
Næstu kynningar á Takti verða haldnar 3. febrúar, 8. febrúar og 10. febrúar. Til að halda utan um fjölda gesta á hverri kynningu eru þátttakendur vinsamlegast beðnir um að skrá sig hér.

11. janúar 2022
Taktur sjúkraþjálfun mun opna á 1. hæðinni í Lífsgæðasetri St. Jó. Þar verður boðið upp á sérhæfða þjálfun fyrir fólk með parkinson og parkinsonskylda sjúkdóma. Andri Þór Sigurgeirsson sjúkraþjálfari mun reka stöðina en hann er sérfræðingur í taugasjúkraþjálfun og hefur áralanga reynslu af þjálfun fólks með parkinson og skylda sjúkdóma. Margir þekkja Andra frá Reykjalundi þar sem hann starfaði áður í taugateyminu. Stefnt er að því að Taktur sjúkraþjálfun opni í mars 2022.

Í Takti sjúkraþjálfun verður lögð áhersla á hópþjálfun en einnig verður boðið upp á einstaklingsmeðferðir. Núna er hægt að skrá sig á biðlista en Andri Þór mun hafa samband við þá sem eru á biðlistanum þegar nær dregur opnun. Hægt er að skrá sig á biðlistann hér.

5. janúar 2022
Við ætlum að bjóða fólki að koma í litlum hópum á kynningar í Takti miðstöð Parkinsonsamtakanna. Þar verður fyrirhuguð starfsemi kynnt og fólki boðið að skoða húsnæðið. Hægt er að skrá sig á kynningu hér.

4. janúar 2022
Það stóð til að opna Takt miðstöð Parkinsonsamtakanna með fullum krafti á nýju ári. Nú hefur Covid sett strik í reikninginn og við erum að endurskipuleggja okkur miðað við gildandi samkomutakmarkanir. Dagskráin næstu vikurnar verður kynnt fljótlega og auglýst bæði á heimasíðu og samfélagsmiðlum.

Unnið er því að koma aðstöðu fyrir sjúkraþjálfun í gagnið. Við stefnum núna á að geta hafið hópþjálfun hjá sjúkraþjálfara í mars 2022.

16. desember 2021
Framkvæmdum á 3. hæðinni er lokið og verið að setja inn húsgögn og innanstokksmuni þannig að Taktur miðstöð Parkinsonsamtakanna er að verða hlýlegri með hverjum deginum sem líður. Við hlökkum mikið til að taka á móti félagsmönnum í St. Jó á nýju ári.

Iðnaðarmenn vinna hörðum höndum að pússa marmarann á stigaganginum en stigagangurinn hefur verið alveg lokaður á framkvæmdatímanum. Stigagangurinn opnar um áramótin en þar hefur handriðið verið hækkað upp í löglega hæð en það var mjög lágt eins og tíðkaðist þegar húsið var byggt árið 1926.

Á 1. hæðinni eru miklar framkvæmdir í gangi en verið er að skipta út lögnum en það var viðmeira verkefni en gert var ráð fyrir í byrjun. Á 1. hæðinni verður Taktur sjúkraþjálfun með aðstöðu og því er ljóst að við munum ekki geta opnað sjúkraþjálfunina strax eftir áramótin. Iðnaðarmennirnir vinna þó hörðum höndum að því að halda áætlun og allir eru að gera sitt besta svo að sjúkraþjálfunin geti opnað sem fyrst eftir áramót.

Á 4. hæðinni er líka unnið við að stúka niður rými fyrir hina ýmsu rekstraraðila og verður hæðin öll tekin í notkun í byrjun næsta árs. Við sjáum við fram á að fá fleiri góða nágranna í húsið og að meira líf færist yfir Lífsgæðasetur St. Jó þegar allir rekstraraðilarnir í húsinu byrja að taka á móti sínum skjólstæðingum og bjartir tímar framundan.

4. október 2021
Framkvæmdir á 3. hæðinni í St. Jó eru vel á veg komnar. Það er búið að mála og setja gólfefni og nú er unnið að því að setja upp innréttingar og tæki. Við sjáum húsnæði Takts miðstöðvar Parkinsonsamtakanna taka miklum breytingum og verða hlýlegra með hverjum deginum. Mikið sem við erum þakklát fyrir að fá aðstöðu í þessu yndislega húsi.

20. september 2021
Ágústa Kristín Andersen hjúkrunarfræðingur hóf störf hjá Parkinsonsamtökunum um miðjan september sem forstöðumaður Takts miðstöðvar Parkinsonsamtakanna. Ágústa vinnur nú hörðum höndum að undirbúningi opnunar. Við bjóðum Ágústu velkomna til starfa og hlökkum samstarfsins.