Um parkinson

Hvað er parkinson?

Parkinson er taugahrörnunarsjúkdómur sem hefur áhrif á þær taugafrumur í heilanum sem stjórna hreyfingu. Einkenni sjúkdómsins byrja hægt en ágerast smám saman eftir því sem tíminn líður. Sjúkdómurinn er nefndur eftir enska lækninum James Parkinson sem greindi fyrst frá einkennum sjúkdómsins árið 1817.

Um það bil 10 milljónir manna eru greindir með parkinsonsjúkdómin um allan heim. Á Íslandi eru um 1.200 einstaklingar greindir með parkinson. Fólk á öllum aldri getur greinst með parkinson en sjúkdómurinn greinist hjá um 1% þeirra sem komin eru yfir 60 ára aldur og er því næstalgengasti taugahrörnunarsjúkdómur í þessum aldurshópi, næst á eftir Alzheimersjúkdómnum. Fleiri karlar en konur fá parkinson, um 60% þeirra sem fá parkinson eru karlar og 40% konur.

Parkinsonsjúkdómurinn er mjög persónubundinn og engir tveir upplifa nákvæmlega sömu einkennin en þau geta líka þróast á mismunandi hátt. Einkennin geta verið breytileg dag frá degi og á mismunandi tímum sólarhringsins. Augljósustu einkenni parkinsonsjúkdómsins eru tengd hreyfingu eins og skjálfti, vöðvastífleiki og hægar hreyfingar. Önnur einkenni sem tengjast ekki hreyfingu geta haft töluverð áhrif á lífgæði. Helstu einkennin sem ekki tengjast hreyfingu eru svefntruflanir, verkir og þreyta og andleg vanlíðan eins og þunglyndi og kvíði.

Hreyfingum okkar er stjórnað af taugafrumum í heilanum sem senda skilaboð sín á milli og til annarra hluta líkamans með taugaboðefnum. Parkinsonsjúkdómurinn leiðir til þess að dópamínmyndandi frumur í heilanum hætta smám saman að mynda taugaboðefnið dópamín, sem er það taugaboðefni sem stjórnar hreyfingu og jafnvægi.

Þó að parkinson hafi aðallega áhrif á taugaboðefnið dópamín hefur hann einnig áhrif á önnur taugaboðefni. Það getur útskýrt af hverju parkinsonsjúklingar upplifa líka einkenni sem ekki tengjast hreyfingu.

Enn sem komið er ekki til nein lækning við parkinson en það eru margt hægt að gera til auka lífsgæði. Hreyfing og jákvætt hugarfar hjálpar fólki að vera áfram við stjórnvölin í eigin lífi.

Parkinsonsjúkdómurinn er ekki lífsógnandi sjúkdómur en hann hefur áhrif á lífsgæði. Sum einkenni sjúkdómsins geta gert fólk viðkvæmara við öðrum sjúkdómum en í flestum tilfellum dregur parkinson ekki verulega úr lífslíkum.

Einkenni

Einkenni parkinsonsjúkdómsins eru bæði hreyfieinkenni og önnur einkenni sem ekki tengjast hreyfingum, svokölluð ekki-hreyfieinkenni (e. non-motor symptoms).

Hreyfieinkenni

Hreyfieinkenni eru t.d. hægar hreyfingar, hvíldarskjálfti, vöðvastífleiki og jafnvægisvandamál.

Önnur hreyfieinkenni eru erfiðleikar við að hefja hreyfingar. Það getur verið erfitt að standa á fætur eða að ganga af stað. Einnig er algengt að fólk depli augum sjaldnar, hreyfi andlitsvöðva minna og að annar eða báðir handleggir sveiflist minna á göngu.

Hreyfieinkennin stafa fyrst og fremst af dópamínskorti sem stafar af minnkaðri framleiðslu dópamíns í heilanum. Hægt er að halda þeim að nokkru leyti í skefjum með lyfjum sem verka sem „staðgenglar“ náttúrulegs dópamíns.

Dæmi um hreyfieinkenni:

 • Hægar, stirðar hreyfingar
 • Skjálfti
 • Vöðvastífleiki
 • Jafnvægisleysi

Rannsóknir sýna að þau einkenni sem valda mestum erfiðleikum í daglegu lífi séu þau sem tengjast ekki hreyfingu, þ.e. hugræn einkenni og önnur einkenni sem ekki hafa áhrif á hreyfifærni.​

Ekki-hreyfieinkenni

Ekki hreyfieinkenni eru til dæmis minnkað lyktarskyn, þunglyndi, þreyta, svefntruflanir, bráð þvaglát og verkir. Einkenni frá maga og þörmum eru algeng, m.a. hægðatregða.

Hugrænu einkennin geta komið fram í erfiðleikum með minni, málnotkun, einbeitingu, eftirtekt og athygli. Það verður erfiðara að einbeita sér og að ráða við fleiri en eitt viðfangsefni í einu. Maður finnur kannski til þreytu, er illa upplagður og áhugalaus og skortir lífsgleði.

Einkennin sem ekki lúta að hreyfigetu eru yfirleitt „ósýnileg“. Þau geta þó valdið meiri erfiðleikum í daglegu lífi en hreyfieinkennin

Dæmi um ekki-hreyfieinkenni:

 • Minnkað lyktarskyn
 • Þunglyndi
 • Kvíði
 • Stuttur svefn
 • Verkir
 • Hægðatregða
 • Bráð þvaglát
 • REM svefntruflun
 • Raddvandi
 • Kyngingarörðugleikar
 • Skert minni og einbeiting
 • Þreyta
 • Vandamál við þvaglát
 • Blóðþrýstingstruflanir

Parkinson er mjög einstaklingsbundinn sjúkdómur, einkennin mjög mismunandi frá einum einstaklingi til annars. Margvísleg einkenni tengjast parkinsonssjúkdómnum en það er misjafnt hvaða einkenni fólk upplifir.

Einkenni parkinsonsjúkdómsins koma yfirleitt smám saman í ljós, oftast byrja þau í annarri hlið líkamans, en fara síðar yfir í báðar. Eftir því sem líða tekur á sjúkdóminn koma einkennin betur í ljós en framvinda hans er mjög mismunandi eftir einstaklingum. Hjá mörgum eru einkennin sveiflukennd frá degi til dags og sjúklingurinn á sína góðu og slæmu daga.

 

Heimilidir: EPDA og parkinson.dk

Stuðningur þinn skiptir öllu máli

Gerast vildarvinur

Vildarvinir Parkinsonsamtakanna eru þeir sem sem kjósa að styrkja starfið með mánaðarlegu framlagi að eigin vali.

Stakur styrkur

Með stöku framlagi aðstoðar þú okkur við að veita margvíslega þjónustu eins og að efla fræðslu, forvarnir, ráðgjöf og stuðning.

Gerast félagi

Félagsaðild er opin öllum sem hafa áhuga á starfsemi Parkinsonsamtakanna. Með félagsaðild styður þú starfsemi Parkinsonsamtakanna.

FÁÐU RÁÐGJÖF HJÁ FAGFÓLKI

Ráðgjafar okkar veita fræðslu, ráðgjöf og stuðning við fólk með parkinson, parkinsonskylda sjúkdóma og aðstandendur þess.