Aðalfundur Parkinsamtakanna verður haldinn þriðjudaginn 31. mars nk. kl. 17:00 í Setrinu, Hátúni 10. Það liggur fyrir að breyting verður á stjórn samtakanna og er nú óskað eftir áhugasömum félagsmönnum til að bjóða sig fram í stjórn eða varastjórn.
Stjórn Parkinsonsamtakanna er skipuð 5 einstaklingum: formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda og svo eru 2 í varastjórn.
Stjórn samtakanna er með stjórnarfundi alla jafna einu sinni í mánuði en oftar ef svo ber undir. Verkefni stjórnar eru margvísleg, má þar nefna undirbúningur og þátttaka á viðburðum, samskipti við stjórnvöld, styrkumsóknir, stefnumótun og fleira. Stærsta verkefnið sem liggur fyrir er stofnun Parkinsonseturs þar sem boðið verður upp á fræðslu, þjálfun, stuðning og ráðgjöf fyrir fólk með parkinson og skylda sjúkdóma og aðstandendur þeirra.
Félagsmenn sem hafa áhuga og hugsjón fyrir starfi Parkinsonsamtakanna eru hvattir til þess að gefa kost á sér til starfa.
Allar nánari upplýsingar um störf stjórnar má fá að skrifstofu samtakanna í s. 552-4440 eða með tölvupósti á netfangið parkinsonsamtokin@gmail.com. Tilkynningar um framboð óskast einnig með tölvupósti á netfangið parkinsonsamtokin@gmail.com.
Um stjórn Parkinsonsamtakanna í lögum samtakanna:
10. GREIN: STJÓRN PARKINSONSAMTAKANNA
Stjórn samtakanna skipa 5 menn og 2 til vara. Á hverjum aðalfundi er kosinn formaður til eins árs og tveir stjórnarmenn til tveggja ára í senn. Varamenn skulu kosnir til eins árs.
Stjórnin skiptir með sér verkum, kýs sér varaformann, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. Formaður boðar til stjórnarfunda eins oft og þurfa þykir en þó skulu fundir aldrei vera færri en fjórir á ári. Halda skal stjórnarfund ef minnst tveir stjórnarmenn óska eftir því. Stjórnin er ályktunarhæf þegar minnst þrír stjórnarmenn eru mættir á stjórnarfund. Meirihluti atkvæða ræður ákvörðunum á stjórnarfundi en ef atkvæði eru jöfn er tillagan fallin.
Stjórnin ber ábyrgð á starfsemi samtakanna milli aðalfunda og skal starfa í samræmi við samþykktir hans. Meirihluti stjórnar getur skuldbundið samtökin fjárhagslega, án samþykkis félagsfundar, á grundvelli bókaðrar samþykktar meirihluta stjórnar, að fjárhæð sem nemur 2ja ára árgjöldum.
Stjórnin skipar 3 menn á aðalfund ÖBÍ og 3 til vara og einn fulltrúa í stjórn Setursins og einn til vara.