Styrkur afhentur Bjarni Hafþór Helgason, Ingvar Þór Gylfason, Egill Ásdísarson og Vilborg Jónsdóttir.
Fuglar hugans – listasýningin í Kringlunni verður opin til 11. apríl nk. Þeir sem hafa ekki möguleika á að skoða sýninguna á staðnum geta nú séð hana í sýndarveruleika. Á sýningunni eru 12 málverk eftir Ingvar Þór Gylfason sem eru máluð við tónlist eftir Bjarna Hafþór Helgason. Í sýndarveruleikanum er hægt að skoða málverkin og smella á þau en þá kemur upp myndband unnið af Kristjáni Kristjánssyni hjá Kraumar. Á myndbandinu er tónlistin sem verkið er málað eftir og dans saminn af Kötu Vignis.
Fuglar hugans í sýndarveruleika: https://bit.do/fuglar-hugans.
Sýningin er kostuð af Bjarna Hafþóri og Ingvar Þór gefur öll málverkin sem voru öll seld áður en sýningin opnaði en söluverðmæti þeirra rennur óskipt til Parkinsonsamtakanna. Listamennirnir hafa nú afhent Parkinsonsamtökunum formlega styrkinn – 6 milljónir króna – sem verður varið í uppbyggingu Parkinsonseturs.
Þessi glæsilega sýning hefur haft mikla þýðingu fyrir Parkinsonsamtökin. Í Kringlunni höfum við haft fulltrúa samtakanna sem kynna sýninguna, verkin, Parkinsonsamtökin og fyrirhugað Parkinsonsetur. Fjölmiðlaumfjöllunin sem Bjarni Hafþór hefur fengið út á sýninguna hefur fengið verðskuldaða athygli og beint sjónum fólks að sjúkdómnum og samtökunum.
Við erum afar þakklát listamönnunum sem lögðu mikla vinnu á sig í þágu samtakanna. Án þeirra hefði þessi sýning aldrei orðið að veruleika og afrakstur hennar hjálpar okkur við að láta drauminn um Parkinsonsetur rætast.