Sýningin „Fuglar hugans“ í Kringlunni til 11. apríl

Á sýningunni Fuglar hugans kemur saman í eina heild myndlist, tónlist, kvikmyndagerð og dans. Á sýningunni er að finna 12 málverk eftir Ingvar Þór Gylfason sem voru innblásin af tónlist eftir Bjarna Hafþór Helgason. Við hliðina á hverju málverki er skjár með myndbandi eftir Kristján Kristjánsson / Kraumar en þar má hlusta á tónlistina eftir Bjarna Hafþór, sjá Ingvari mála verkin og Kötu Vignis dansa en hún samdi dans við hvert lag.

Kostnaður við sýninguna er greiddur af Bjarna Hafþóri og Ingvar Þór gefur öll verkin. Söluverðmæti þeirra rennur beint til Parkinsonsamtakanna og fer í uppbyggingu Parkinsonseturs sem opnar í nýju húsnæði Parkinsonsamtakanna í Lífsgæðasetri St. Jó í Hafnarfirði í lok ársins. Miðvikudaginn 7. apríl munu listamennirnir afhenda Parkinsonsamtökunum styrkinn formlega en öll verkin á sýningunni eru seld.

Sýningin er í Kringlunni við hliðina á Nova og er opin á opnunartíma Kringlunnar og þar eru fulltrúar samtakanna sem kynna samtökin og fyrirhugað Parkinsonsetur. Síðasti sýningardagurinn verður sunnudagurinn 11. apríl sem er Alþjóðlegi parkinsondagurinn.

Parkinsonsamtökin senda bestu þakkir til listamannanna Bjarna Hafþórs, Ingvars Þórs, Kristjáns og Kötu Vignis fyrir ómetanlegan stuðning við samtökin. Eins fær Kringlan bestu þakkir fyrir stuðning við sýninguna og NOVA sem hefur aðstoðað með tæknimálin.

Sýningin er öll hin glæsilegasta og við hvetjum alla til að sjá hana. Það mega 10 manns verða í rýminu í einu, það er grímuskylda og fólk beðið um að hugsa vel um persónulegar sóttvarnir.