Hjólatúr á Alþjóðlega parkinsondaginn 11. apríl

Skelltu þér með í hjólatúr með Skemmtiferðinni og Parkinsonsamtökunum á Alþjóðlega parkinsondaginn, sunnudaginn 11. apríl 2021.

Snorri Már upphafsmaður Skemmtiferðarinnar hefur hjólað mikið og nýtt hreyfinguna í baráttunni við parkinsonsjúkdóminn. Hann er að fá afhent nýtt hjól þann 11. apríl og ætlar að því tilefni að skipuleggja hjólatúr frá versluninni Mobility.is sem er í sama húsi og Útilegumaðurinn í Bugðufljóti 7, Mosfellsbæ og enda á myndlistasýningu Parkinsonsamtakanna Fuglar hugans í Kringlunni en lokadagur sýningarinnar er einmitt 11. apríl.

Eins og í fyrri ferðum Skemmtiferðarinnar þá er öllum velkomið að hjóla með okkur, hvort sem farinn er hluti leiðar eða öll leiðin. Hjólaleiðin er um 18km en við vitum að það hentar ekki öllum að byrja á upphafsreit. Leiðinni er skipt í fimm hluta og gefum við upp áætlaða tímasetningu til að auðvelda fólki að verða samferða eða bara að fylgjast með okkur. Ef við verðum fljótari á milli pósta, en gefið er upp á kortinu, þá munum við tímajafna okkur og leggja af stað á réttum tíma. Þeir sem vilja koma inn í ferðina geta gert það með því að velja einhvern stað á hjólaleiðinni og bíða þar til við eigum leið um svæðið.

11:00 – Lagt af stað frá Mobility.is, Bugðufljóti 7 í Mosfellsbæ.
11:15 – Hringtorg við Tunguveg – Skólabraut í Mosfellsbæ. Vegalengd: 2,5 km.
11:25 – Göngustígur fyrir neðan Korpu golfvöll. Vegalengd: 8 km.
11:40-11:55 – Tökum pásu við listaverkahæðin fyrir ofan Geldinganes. Vegalengd 11 km.
12:15 – Bryggjuhverfið. Vegalengd: 15 km.
12:40 – Listasýning Fuglar hugans í Kringlunni. Vegalengd: 18 km.

Við verðum á Listaverkahæðinni hjá Geldinganesinu kl.11:40 til 11:55 og er kjörið fyrir þá sem hafa litla hjólareynslu að koma inn í hópinn á þessum stað, því þá eru allar stóru brekkurnar búnar.

Viðburðurinn á Facebook.