Persónulegir talsmenn geta nú aðstoðað fatlað fólk við að nálgast stafræn erindi
Mikilvægt skref hefur verið tekið við að ryðja úr vegi stafrænum hindrunum hjá fötluðu fólki hér á landi. Persónulegir talsmenn fatlaðs fólks geta nú komið fram fyrir hönd umbjóðenda sinna á Mínum síðum á Ísland.is og fengið aðgang að stafrænu pósthólfi þeirra en þangað berast meðal annars erindi frá opinberum aðilum. Skýrt ákall hefur verið um breytingarnar og hefur verkefnastofa um Stafrænt Ísland unnið að þeim ásamt félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, þar með talið réttindagæslumönnum fatlaðs fólks. Þróaður hefur verið stafrænn talsmannagrunnur sem markar tímamót og gerir persónulegum talsmönnum kleift að skrá sig inn með sínum eigin rafrænu skilríkjum fyrir hönd umbjóðenda sinna og á grundvelli samnings þeirra á milli. Fyrsta þjónustan sem tekin er í gagnið er aðgangur að stafrænu pósthólfi en næsta skref er að tengja talsmannagrunninn við aðrar stofnanir og fyrirtæki þannig að talsmenn geti nálgast stafræna þjónustu fyrir hönd umbjóðenda sinna. Unnið er ötullega að þeim tengingum.
Sjá nánar á stjornarradid.is