Reykjavíkurmaraþonið 22. ágúst 2020

Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram í 37. sinn laugardaginn 22. ágúst og skráning er hafin hér á marathon.is.

Fimm vegalengdir eru í boði og því ættu allir aldurshópar og öll getustig að geta fundið eitthvað við sitt hæfi:

• Maraþon (42,2 km)
• Hálfmaraþon (21,1 km)
• 10 km hlaup
• 3 km skemmtiskokk

Skráning í 600 m skemmtiskokk hefst þegar nær dregur hlaupi.

Það verða smávægilegar breytingar á hlaupinu í ár vegna COVID-19. Helstu breytingar:
• Rássvæði verður í Sóleyjargötunni og marksvæði í Lækjargötu, því mun upphaf hlaupaleiðanna breytast lítillega í kjölfarið.
• Ráshópar verða fleiri og dreifingin meiri á hlaupurunum yfir lengri tíma.
Takmarkmaður fjöldi getur tekið þátt í hverri vegalengd og er því líklegt að uppselt verði í einhverjar vegalengdir í ár.

Allir þátttakendur geta safnað áheitum til styrktar Parkinsonsamtökunum. Áheitasöfnunin er afar mikilvæg fjáröflunarleið fyrir samtökin. Upplýsingar um áheitasöfnunina má finna hér á hlaupastyrkur.is

Parkinsonsamtökin verða á Fit&Run EXPO skráningarhátíð Reykjavíkurmaraþon í Laugardalshöllinni 20. og 21. ágúst. Komdu við á básnum okkar! Allir sem hlaupa fyrir Parkinsonsamtökin fá gefins bol eftir Hugleik Dagsson. (Gildir fyrir alla sem hafa ekki fengið bol áður og á meðan birgðir endast).

Á hlaupadaginn verða Parkinsonsamtökin með hvatningarstöð á Suðurströnd, rétt hjá Sundlaug Seltjarnarness, þar sem við munum hvetja hlauparana áfram.

Það er mikil og góð stemming í kringum Reykjavíkurmaraþonið. Bestu þakkir til allra sem eru tilbúnir að leggja samtökunum lið með því að hlaupa, safna áheitum, styrkja með áheitum og vekja athygli á samtökunum á Fit&Run EXPO, í hlaupinu sjálfu og á hvatningarstöðinni. 

Taktu þátt í deginum með okkur!

Við viljum hvetja alla félagsmenn til að taka þátt í þessum degi með okkur með því að:

• aðstoða okkur við að kynna samtökin á Fit&Run EXPO í Laugardalshöll 20. eða 21. ágúst
• taka þátt í hlaupinu og safna áheitum
• hvetja vini og ættingja til að hlaupa og safna áheitum
• smella áheitum á hlaupara sem hlaupa fyrir Parkinsonsamtökin
• aðstoða okkur við að halda uppi stuðinu á hvatningarstöðinni og hvetja hlauparana áfram

Þeir sem vilja aðstoða okkur á Fit&Run EXPO í Laugardalshöll eða aðstoða okkur á hvatningarstöðinni mega skrá sig á sjálfboðalistann okkar og við höfum samband þegar nær dregur.

Uppfært: Skráningu er lokið.