Eftir Aðalstein Sveinsson.
Ég hlakka til jólanna. Það held ég hafi yfirleitt gert á hverju ári alla mína ævi. Jólin er tími hefðanna og þá sem aldrei fyrr er leitast við að halda í sömu siðina frá ári til árs. Það eru einhvern veginn hálfgerð helgispjöll að vera að róta til í jólahefðunum og leggja margir mikið upp úr því að fylgja þeim í hvívetna.
Það mætti því halda að lítið hafi breyst í áranna rás varaðandi jólahald landsmanna og sjálfum finnst mér jólin alltaf jafn hátíðleg og samt eins frá ári til árs. En svo fer maður að hugsa til baka.
Ég minnist þess allt frá barnæsku hafi undirbúningur jólanna staðið með einum eða öðrum hætti alla aðventuna. Þegar ég var barn einkenntist þessi tími af húsþrifum, kökubakstri, fatasaum, jólakortagerð og öðru jólaföndri, jólakortaskrifum, eplakaupum, kaupum á jólaöli í 20 lítra plastbrúsum, hangikjötslykt og ýmsu öðru sem hægt væri að telja upp.
Þegar maður var orðinn fullorðinn og kominn með fjölskyldu sjálfur var leitast við að viðhalda sem mest af þeim jólahefðum sem maður ólst upp við. Síðan þegar börnin manns eru orðin fullorðin og komin með fjölskyldur og farin að halda sín jól leitast þau einnig við að viðhalda þeim jólahefðum sem þau ólust upp við. Og þannig virist þetta vera á mörgum heimilum. Maður gæti því haldið að ekkert hafi breyst og allt væri við það sama og áður.
En í dag virðist mér aðventan einkennast meira af jólahlaðborðum, jólatónleikum, jólaverslun, jólalögum, jólabókum, jólasælgæti, jólakvikmyndum, jólasveinum, jólamessum, jólabjór, jólaljósum, jólaskreytingum, jólabónus, jólaglöggi, jólagjöfum, jólakveðjum á facebook, jólaauglýsingum, jólamat, jólaboðum, jólaböllum. jólaferðum, jólaskrauti, jólaauglýsingum, jólamyndum, jólasýningum, jólafötum, jólaafsláttum, jólabúðingum, jólaskóm, jólaslökun, jólalestum, jólatrjám, jólakökum, jólaskemmtunum, jólaleikjum, jólasteikum…….o.s.frv.
Samt eru jólin alltaf jól og ég hlakka bara til.
————
Ég hef verið spurður að því hvort jólin hafi mikið breyst hjá mér eftir að hafa greinst með Parkinsonveikina. Stutta svarið er nei það hefur ekkert breyst.
Að vísu kem ég ekki miklu í verk miðað við það sem áður var. Ég er hættur að standa í því að reykja jólahangikjötið sjálfur eins og ég gerði stundum áður og var eitt af þeim verkum sem kom manni í jólagírinn. Ég er líka latur við að koma upp jólaljósum utandyra þar sem ég þoli illa orðið að vinna úti þegar kalt er. Ég fæ nú samt heimareykt hangiket á jólunum og nóg er af fallegum jólaljósum um allt.
Ég er ómögulegur í margmenni og í örtröð og biðröðum get ég alls ekki verið. Þá fara parkinsoneinkennin á flug og ég ýmist frýs fastur eins og myndastytta eða skelf eins og jarðvegsþjappa. Ég hætti að heyra og sjá almennilega þar sem hugsunin virðist líka frjósa og öll einbeitingin fer í að hafa stjórn á hreyfingunni. Ég forðast því slíkar aðstæður. Ég hef svo sem aldrei verið mikið fyrir að versla og jólaversluninni er sinnt af öðrum en mér á mínu heimili.
Ég hef alveg ánægu af að hitta fólk en fæ samt orðið smá kvíða ef ég fer á sýningar, tónleika eða aðra slíka viðburði. Maður veit aldrei á hverju Parkinson tekur upp á við slíkar aðstæður. Ég gætu þurft að fara á klósettið á fimm mínuta fresti. Ég gæti skyndilega fengið verk eins og hnífi væri stungið í lærið á mér eða í hálsinn eða hvar sem er. Ég gæti kippst við eins og í flogakasti eða öskrað ósjálfrátt upp með hjóðum. Ég fæ verki ef ég þarf að vera kyrr lengi sem geta orðið óbærilegir.
Og þetta er ekki bara ástæðulaus hugaburður. Þetta hefur allt gerst hjá mér við hinar ýmsu athafnir og á mannamótum. Ég fer því ekki á marga slíka viðburði en vel þá vel sem ég sæki og reyni að fara vel undirbúinn.
Ég hef orðið lítið lyktar- og bragðskyn. Það er því ekki lyktin eða bragðið sem er þess valdandi að maður borðar yfir sig af mat. Ég þarf orðið meira að segja að passa mig á að borða nóg svona hversdagslega. Jólamaturinn er samt alltaf dýrlega góður og ég nýt þess sem aldrei fyrr að borða hann með því fólki sem mér þykir vænst um.
Já jólin eru alltaf jól og ég hlakka bara til eins og áður.
————
Ég hitti einn kunningja minn um daginn. Þetta var einhvern tímann í nóvember. Hann er mikill jólakall og tekur jólaundirbúninginn og jólin alveg með trompi. Hann var að koma út úr Húsasmiðjunni með fangið fullt af jólaljósaseríum. Hann mátti lítið vera að stoppa og spjalla við mig. Hann var að fara að setja upp jólaljós á og við húsið sitt og í garðinum hjá sér. Hann hvatti mig bara til að koma og skoða skreytinguna hjá sér þegar hann væri búinn.
Ég hitti hann svo viku seinna á sama stað og aftur var hann með jólaljósaseríur í fanginu og að flýta sér. Suðaustanáttin hafði verið nokkuð sterk nóttina áður og einhvert tjón varð á jólaskreytingunum hjá mínum manni. Hann var keppast við að lagfæra það sem aflaga fór en var í tímahraki. Hann og frúin voru nefnilega á leið í jólahlaðborð í Reykjavík seinnipartinn. Hann skammaði mig þó fyrir að hafa ekki komið að sjá hjá sér skreytingarnar.
Nokkrum dögum seinni ákvað ég því að líta við hjá honum og skoða jólaskreytingarnar hjá honum. Hann var nú ekki heima þegar ég kom og konan hans ekki heldur. Ég stoppaði samt í smá stund fyri utan hjá þeim og virti fyrir mér fagurskreytt húsið.
Það voru jólaljós á öllum útlínum hússins og um allan garðinn, upp um flest tré í garðinum og jólasveinar og snjókallar hingað og þangað um alla lóðina og upp um alla veggi. Þetta var virkilega flott og ég gat ekki annað en dáðst að dugnaðinum í honum að koma þessu upp.
Nú kom konan hans heim með eitthvað af börnum þeirra hjóna. Þegar ég hafði heilsað henni fór ég að hrósa þeim fyrir jólaskreytingarnar. Hún tók því vel en mátti lítið vera að tala við mig. Hún sagði mér að hún hafi gleymt að panta miða fyrir þau hjón á einhverja jólatónleika og ætlaði að hringja strax og athuga með þessa miða. Hún óttaðist mest að nú væri orðið uppselt og þau myndu missa af þessum tónleikum.
Þegar frúin var nýhlaupin inn til að athuga með miða á þessa tónleika kom kunningi minn heim. Ég hrósaði honum fyrir flottar jólaskreytingar. Hann tókst allur á loft við það og leiddi mig um allan garðinn og hringinn í kringum húsið svo ég gæti séð jólaskrautið og jólaljósin hans nákvæmlega.
Allt í einu hringir hjá honum síminn og hann svara að bragði. Hann er ekki búinn að heyra nema nokkur orð í símanum hjá sér þegar ég sé að hann fórnar höndum og biður þann sem í símanum var, margfaldlega afsökunar og segist koma strax. Síðan biður hann mig afsökunar og segist hafa gleymt að hann var búinn að lofa syni sínum að koma og sjá einhverja jólasýnigu í skólanum á þessum tíma. Síðan var hann rokinn í burtu.
Þegar maðurinn var nýfarinn kom konan hans aftur út. Ég spurði hana hvort hún hafi fengið miða á tónleikana og játaði hún því. Þetta voru að vísu síðustu lausu miðarnir. Hún hafði ekki getað fengið tvö sæti hlið við hlið. En henni tókst þó að fá tvo miða fyrir þau, annað á fremsta bekk í salnum en hitt aftast á efstu svölum í salnum. En þau myndu þó ekki missa af tónleikunum.
Ég hitti þau bæði svo aftur fyrir tilviljun á gangi í Reykjavík nokkrum dögum seinna. Eða réttast sagt ég var á gangi en þau komu hálfhlaupandi á móti mér. Ég bauð góðan daginn en þau rétt köstuðu á mig kveðju og síðan afsökun. Þau sögðust vera að keppast við að gera jólainnkaupin. En dagurinn væri bara svo stuttur hjá þeim þvi það var eitthvert jólglögg í kvöld sem þau vildu mæta í.
Í gær hitti ég svo þennan kunningja minn enn og aftur. Hann virtist nokkuð þreytulegur og var hálf ergilegur. Hann trúði mér fyrir því að hann vissi ekki hvað hann ætti að gefa konunni sinni í jólagjöf. Ég gat nú lítið hjálpað honum í þeim vanda, því ég veit svo sem aldrei hvað ég á að gefi minni konu í jólagjöf.
En ég vildi nú samt reyna að hughreysta manninn svo ég segi svona við hann: “Ertu ekki bara að fara heldur geyst í þessum jólaundirbúningi. Er ekki kannski tímabært að hægja aðeins á og hugsa sinn gang. Hvernig væri nú að stoppa aðeins við og fara bara heim og njóta þess sem þú átt þar dýrmætast og þér þykir vænst um.”
Hann horfði fyrst á mig skilningsvana. Svo færðist undrunarsvipur yfir hann og svo segir hann með hálfgerðum hneykslunarsvip. “Ert þú að segja mér, að af því að ég veit ekki hvað ég eigi að gefa konunni í jólagjöf, sé best fyrir mig að fara bara heim og drekka allt koníakið mitt.”
Ekki týna ykkur í jólaösinni.
Með bestu jólakveðjum, Aðalsteinn.