Kæru vinir, gleðilegt ár!
Við höfum beðið lengi eftir árinu 2022 því það stóð til að hefja starfsemi Takts miðstöðvar Parkinsonsamtakanna af fullum krafti á nýju ári. Enn og aftur hefur Covid sett strik í reikninginn hjá okkur og við verðum því að endurskipuleggja okkur í samræmi við gildandi samkomutakmarkanir. Við ætlum þó að byrja og erum að setja saman dagskrá sem verður kynnt fljótlega og auglýst bæði á heimasíðu og samfélagsmiðlum.
Í Lífsgæðasetri St. Jó er þó engin lognmolla. Það eru iðnaðarmenn um allt hús en staðan í dag er sú að 3. hæðin, þar sem Taktur miðstöð Parkinsonsamtakanna er staðsett, er því sem næst tilbúin. Það eru öllum meiriháttar framkvæmdum lokið og við erum að verða búin að koma okkur vel fyrir. Allar framkvæmdirnar ásamt húsgögnum og tækjum eru styrkur frá Styrktar- og líknarsjóði Oddfellowa en þeirra aðkoma að húsnæðismálum er okkur ómetanleg.
Núna er unnið að frágangi við lyftur og stigagang og aðalinnganginn við Suðurgötu.
Á 1. hæðinni eru miklar framkvæmdir í gangi en verið er að skipta út lögnum en það var viðmeira verkefni en gert var ráð fyrir í byrjun. Á 1. hæðinni verður Taktur sjúkraþjálfun með aðstöðu og því er ljóst að við munum ekki geta opnað sjúkraþjálfunina strax eftir áramótin. Iðnaðarmennirnir vinna þó hörðum höndum að því að halda áætlun. Við stefnum nú á að opna sjúkraþjálfunina í mars 2022 og það eru allir að gera sitt besta til að halda þeirri áætlun.