Góð ráð fyrir bætta heilsu frá Gunnhildi Heiðu, fjölskyldufræðingi
Núna á næstu dögum mun ég taka fyrir atriði sem geta haft jákvæð áhrif á líf okkar eins og mataræði, hreyfing og hvernig við getum stýrt andlegri líðan okkar. En í dag er það orðið viðurkennt að vellíðan er mikilvægur þáttur í að styrkja ónæmiskerfið.
Í þessum pistli ætla ég aðeins að fara yfir nokkrar matartegundir sem örva ristilinn sem er afar mikilvægt upp á daglega líðan að gera, þar sem hægðatregða getur spillt svefni, valdið líkamlegri vanlíðan, andlegum sljóleika og bólgum í líkamanum.
Mörg lyf valda hægðatregðu, sérstaklega þau sem hafa áhrif á miðtaugakerfið eins og t.d. parkinsonlyf, flogalyf, róandi lyf, þunglyndislyf, verkjalyf, sýklalyf, gigtarlyf og fleiri lyf. Það skiptir því máli að þekkja til hvaða fæðutegundir virka örvandi á ristilinn til að koma í veg fyrir að allt stíflist.
Það er samt ekki síður mikilvægt að hafa í huga að hreyfing hefur mikið að segja, nægur vökvi og ekki síst að gefa sér tíma frá setunni. Örva kviðinn með því að anda vel niður í hann og þenja vel út við innöndun og draga vel saman við útöndun, þannig myndast góð hreyfing og slökun á sama tíma. Jafnvel getur verið gott að nudda kviðinn ef með þarf.
Þær fæðutegundir sem mikilvægt er að beina athyglinni að er neysla grænmetis, eins og grænt salat, grænkál, brokkolí, gulrætur, spírur (baunaspírur), heilt korn, ávextir, hnetur, fræ og baunir.
Linsubaunir eru t.d. mjög örvandi og líka auðugar af steinefnum og mjög trefjaríkar. Auðvelt er að elda linsubaunir og borða sér eða búa til buff úr eða bara hafa ofan á brauð. En ég mæli með að auka neyslu á baunum og minnka neyslu kjöts.
Sítrusávextir eru örvandi og gott getur verið að kreista sítrónu út í vatnsglas og matskeið af olívuolíu og drekka.
Það er upplagt að nota gömlu kaffikvörnina ef hún er til á heimilinu til þess að mala fræ eins og hörfræ, graskersfræ og sesamfræ og blanda saman við súrmjólkina, ab mjólk eða bústið sitt eða bara gamla góða hafragrautinn.
Gott er að hafa hnetur, möndlur, döðlur, fíkjur og apríkósur í bakka í eldhúsinu og narta í öðru hvoru og jafnvel lauma nokkrum súkkulaðirúsínum inn á milli svo til verði vellíðunar snakk.
Fyrir þá sem ekki eru „vegan“ og vilja fá sér kjötbita af og til, mæli ég með að hafa nóg grænmeti með kjötinu og velja þá grænmeti sem er trefjaríkt eins og brokkolí, sætar kartöflur og helst af öllu að hafa með súrkál. Súrkál er hægt að kaupa í nær öllum sérverslunum og það fæst t.a.m. í Frú Laugu og Bændamarkaðnum.
Súrkál auðveldar meltinguna og er stútfullt af jákvæðum gerlum fyrir þarmaflóruna og hjálpar til með að halda jafnvægi á magasýrunum. Sætar kartöflur eru trefjaríkari en hinar venjulegu og líka mjölminni. Fyrir þá sem ekki eru fyrir súrkál er hægt að taka inn „acidophilus“ sem kaupa má í hylkjum í apótekum.
Magnesíum er talið gott fyrir meltinguna og svo má auðvitað ná sér í laxerolíu og taka tvær skeiðar á dag af henni og eða alóveradrykk. Hvoru tveggja fæst í apóteki
Gott er að borða ekki seint á kvöldin og ekki þunga fæðu rétt fyrir svefninn.
Þar sem streita getur haft áhrif á meltinguna er gott að gefa sér tíma af og til yfir daginn að gera nokkrar öndunaræfingar og hlusta á slakandi tónlist.
Ef þessi ráð duga ekki, þá er mikilvægt að hafa samband við lækni og fá viðeigandi bót á sínum málum.
Gunnhildur Heiða fjölskyldufræðingur