Vorið er skemmtilegur tími.. Ég hlakka alltaf til vorsins. Þá er eins og allt vakni og allt fyllist nýju lífi. Farfuglarnir flykkjast til landsins, allur gróður fer að grænka og veröldin skiptir um lit. Lömbin og folöldin koma í heiminn. Sérhvert nýtt líf sem kviknar er kraftaverk, hvort sem það tilheyrir jurtaríki eða dýraríki. Börnin flykkjast út frá sjónvarps- eða tölvuskjánum á reiðhjólum, í fótbolta eða einhverjum öðrum íþróttum og leikjum.
Hér í sveitinni er vorið mikill annatími. Öll afkoma í búrekstrinum er undir og margt sem þarf að gera og mörgu þarf sinna á stuttum tíma. Veðurfarið er úrslitavaldur í þeirri baráttu.
Ég sem hef verið við búskap alla mína ævi og starfandi bóndi í yfir 40 ár hef marga fjöruna sopið í þeim efnum. Ég man eftir köldum vorum eftir kaldan vetur. Jarðklaki fór ekki úr jörðu fyrr en í júní og ekki hægt að komast um fyrir bleytu allt vorið. Enginn gróður fyrir lambfé og allt á fullri gjöf allan sauðburðin.
Ég man líka eftir hlýjum vorum. Allt orðið grænt um sumarmál og nóg að bíta. Jörðin þurr og hægt að byrja jarðvinnslu um miðjan apríl. En á slíkum vorum þarf líka að hafa hraða á. Það þarf að koma ábuði á tún áður en allt sprettur úr sér og það þarf að vera tilbúið að hefja slátt snemma á meðan grösin eru á besta þroskaskeiði.
Vinnudagurinn hefur því oft verið langur hjá mér á vorin, allt frá því ég var unglingur. Mér hefur líkað það vel. Ég hef fengið útrás í þeirri vinnu og upplifað hana nánast sem meðferð fyrir geðheilsu mína. Jafnvel þó allt hafi gengið á afturfótunum og í örvæntingu hefur maður gert sér grein fyrir að búreksturinn myndi ekki skila miklu þetta árið. Næsta vetur er það allt gleymt og grafið. Maður er farinn að hlakka til að takst á við vorverkin aftur.
Þetta vor er mjög sérstakt. Ekki kannski hér í sveitinni sérstaklega, heldur í öllum heiminum. Covid-19 hefur svo sannarlega sett mark sitt á heimsmyndina undanfarin misseri og mun gera það áfram í einhvern tíma. Barnadætur mínar tvær, sem báðar eru 4 ára, verða varar við þetta eins og allir aðrir. Þær eru nú samt ekki að láta þetta trufla sig mikið enda báðar lífsglaðar og orkumiklar. Þær tala um “kórónuvesenið” og spurja mig reglulega hvort það sé núna búið.
En þetta “kórónavesen” er býsna mikill skaðvaldur. Það hefur valdið mörgum heilsutjóni og hefur kostað margt mannslífið. Það hefur orsakað vanlíðan og kvíða hjá mörgum, ekki bara af heilsufarsástæðum. Líka vegna annarra afleiðinga þess faraldurs s.s. atvinnumissis og almennri óvissu um flesta hluti í náinni framtíð.
En svo er það, í þessum hörmungum sem öðrum, að það er alltaf eitthvað sem telja má jákvætt í öllu amstrinu. Samtakamáttur fólks kemur í ljós við svona aðstæður og ótrúleg aðlögunarhæfni. Útsjónasemi í að leysa verkefni við breyttar aðstæður blómstrar og neyðin kennir fólki að tileinka sér breytt vinnubrögð og stafshætti.
Það sem helst hefur komið við mig í þessu ástandi er það að komast ekki í sund og sundleikfimina sem ég hef mætt samviskusamlega í, að verða fjögur ár. Mér er það lífsnauðsyn að halda mér í góðu formi. Það er það sem skiptir öllu máli í minni baráttu við að halda sem bestum lífgæðum með parkinsonsjúkdóminn. Lyfin sem ég er að taka gera aðeins gagn ef ég held mér viðstöðulaust í góðri þjálfun.
Þar hefur sundleikfimin verið mér gagnleg. Sérstaklega á veturnar þegar kalt er. Það er nefnilega þannig að mér hættir til að stífna allur upp, sérstaklega í kuldum. Það svo mikið að ég get verið í vandræðum að hita mig upp fyrir líkamsræktaræfingar. En ég get alltaf hreyft mig í volgu vatninu.
En nú þegar allar líkamsræktarstöðvar og sundlaugar eru lokaðar er maður í nokkrum vandræðum. En þá ríður á að hugsa í lausnum. Í boði á internetinu eru núna hinir ýmsu tímar hjá íþróttaþjálfurum, sjúkraþjálfurum, jókakennurum og ýmsum öðrum sem að gagni geta komið. Parkinsonsamtökin bjóða nú upp á hópþjálfunartíma á internetinu hjá iðjuþjálfa. Þar hef ég reynt að mæta og reynst mér vel.
Þetta er í raun ótrúlega skemmtilegt. Guðrún Jóhanna iðjuþjálfi stýrir þessu með glæsibrag og tíminn fer fram í Zoom fjarfundakerfi. Þar getum við verið öll í mynd hver heima hjá sér og gert æfingarnar saman. Mér finnst bara betra að geta fylgst með sjálfum mér á skjánum um leið og ég fylgist með Guðrúnu gera æfingarnar. Þá gerir maður sér betur grein fyrir hvort maður er að ná þessu rétt.
Það er bara heimilisleg stemming yfir þessum tímum og margt getur komið upp á. Um daginn vorum við að þjálfa handleggina. Guðrún lét okkur halda handleggunum út og hreyfa þá síðan upp og niður eins og við værum að blaka vængjunum. Allt í einu stendur Guðrún upp og labbar út úr myndinni hreyfandi hendurnar eins og vængi. Það næsta sem við heyrum er að hún opnar glugga og ég hugsa: Ætlar hún að fljúga út um gluggann? Ætli við eigum að gera það líka? En þá kemur hún aftur í mynd. Hún hafði bara staðið upp til að hleypa kettinum sínum inn.
Mér finnst augljóst, eftir að hafa tekið þátt í þessum tímum sem og netspjalli hjá Parkinsonsamtökunum í Zoom fjarfundakerfinu, að þetta er kjörið tækifæri fyrir samtökin að efla sína þjónustu og starfsemi. Þarna er tækifæri fyrir fólk sem býr um land allt að taka þátt og nýta sér þjónustu samtakanna.
Eins veit ég að margir sem eru haldnir þessum sjúkdómi eiga erfitt með að fara út á meðal fólks. Ég mundi vilja láta reyna á það hvort þetta geti ekki hentað betur. Það þarf bara að kynna það vel og kenna fólki að nota þessa tækni. Hún er ekki flókin.
En ég sakna þess að komast ekki í sund. Nú þegar vorverkin eru í algleymingi á bænum er mér mest hætt á að ofbjóða skrokknum á mér. Það er ekki vegna þess að ég sé nauðbeygður til að vinna mér til skaða. Ástæðan er að ég er svo meðvirkur í búskapnum að ég gleymi mér í hita leiksins. Áður en ég veit af er ég farinn fram úr sjálfum mér.
Hér á mínu svæði er ekki hitaveita. Heitir pottar eru því ekki mjög algengir við heimili. Þó eru á nokkrum stöðum rafkyndir pottar sem eru bara að virka ágætlega. Þeir eru búnir öflugum hreinsibúnaði þannig að vatnið sem búið er að hita upp nýtist sem best. Það er ekki alltaf verið að skipta um vatn og því eru þeir oftast klárir heitir og notalegir þó ekki sé endilega verið að nota þá daglega.
Einn slíkur er hér við næsta hús, hjá syni mínum og hans fjölskyldu og er talsvert notaður. Þegar ég hef verið slæmur í skrokknum undafarnar vikur hef ég fengið fara í pottinn hjá þeim. Sonarsynir mínir koma þá gjarna með mér og kunnum við allir vel að njóta.
Eitt kvöld, nú fyrir stuttu, fékk ég leyfi til að nota pottinn hjá þeim. Ég var hálf stirður og það var frekar kalt í veðri þetta kvöld. Þar sem ekki er langt hér á milli fór ég í sturtu heima hjá mér og í sundfötin áður en ég skaust yfir til þeirra. Ég fer svo beint inn í bakgarðin hjá þeim. Mér var skítkalt og hlakkaði til að setjast í heitan pottinn. Ég geng beint að pottinum, svifti lokinu af og vippa mér í pottinn.
En það var akkúrat þá sem ég gerði mér ljóst að ekki var allt eins og það átti að vera. Sekúndubroti seinna, vissi ég næst af mér, þar sem ég stóð í kuldanum við hliðina á pottinum. Ekki þeirri hlið sem ég kom að fyrst, heldu hinum megin við pottinn. Ég var nánast þurr, aðeins blautur á iljunum.
Við rannsókn kom í ljós að rafmagnsöryggið við pottinn hafði slegið út og þar sem potturinn hafði ekki verið notaður dagana á undan hafði enginn tekið eftir því fyrr en nú og vatnið orðið ískalt.
Ég held að það hafi bara einu sinni áður gerst að gengið hafi verið á vatni. Fyrra skiptið var fyrir 2.000 árum. Það var þá álitið kraftaverk og eru menn að enn að tala um það.
Með sumarkveðjum,
Aðalsteinn.