Reykjavíkurmaraþon Íslandsbanka fer fram laugardaginn 20. ágúst. Maraþonið hefur verið mikilvæg fjáröflun fyrir Parkinsonsamtökin á undanförnum árum en allir sem taka þátt geta safnað áheitum til styrktar Parkinsonsamtökunum.
Þær vegalengdir sem eru í boði eru:
- 1,7 km skemmtiskokk
- 3 km skemmtiskokk
- 10 km hlaup
- 21,1 km hálfmaraþon
- 42,2 km maraþon
Þátttakendur geta valið að hlaupa eða ganga leiðina og allir geta safnað áheitum – óháð vegalengd.
Afhending gagna fer fram í Laugardalshöll 18. og 19. ágúst en þar fer einnig fram sýningin Fit&Run Expo þar sem Parkinsonsamtökin verða með bás. Allir sem hlaupa fyrir Parkinsonsamtökin fá stuttermabol með merki eftir Hugleik Dagsson á meðan birgðir endast. Hlauparar fá boli afhenta á básnum okkar á Fit&Run Expo. Sýningin er opin og öllum velkomið að kíkja við á básnum okkar; hlauparar, félagsmenn og aðrir velunnarar eru velkomnir.
Opnunartímar í Laugardalshöll:
- 18. ágúst, fimmtudagur kl. 15:00 – 20:00
- 19. ágúst, föstudagur kl. 14:00 – 19:00
Félagsmenn eru hvattir til að láta vini og vandamenn vita af hlaupinu og áheitasöfnuninni. Við erum afar þakklát öllum þeim sem hlaupa til styrktar samtökunum og öllum sem leggja söfnuninni lið á síðunni www.hlaupastyrkur.is.
Parkinsonsamtökin verða með hvatningarstöð á hlaupadaginn, laugardaginn 20. ágúst, á bílastæðinu við Sundlaug Seltjarnarnes. Allir félagsmenn eru hvattir til að vera með okkur á hvatningarstöðinni til að hvetja hlauparana okkar til dáða.
Okkur vantar fólk til að vera með okkur á básnum í Laugardalshöll og kynna samtökin og afhenda boli. Þau sem hafa áhuga á að vera með okkur í Laugardalshöll skrái sig lista yfir sjálfboðaliða hér fyrir neðan og við höfum samband.