Okkur hefur lengi dreymt um að eignast okkar eigið Parkinsonsetur með betri aðstöðu fyrir fræðslu, þjálfun, ráðgjöf, stuðning og námskeið fyrir fólk með parkinson og aðstandendur þeirra. Sá draumur er nú að verða að veruleika. Á haustfundi Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa var samþykkt að styrkja Parkinsonsamtökin með því að innrétta 3. hæðina í Lífsgæðasetri St. Jó fyrir Parkinsonsetur. Þetta eru stór tímamót í sögu Parkinsonsamtakanna, stuðningurinn frá Oddfellow breytir allri starfseminni og gerir okkur kleift að veita enn betri þjónustu. Við sendum öllum Oddfellow bræðrum og systrum okkar innilegustu þakkir. Stuðningur ykkar er okkur ómetanlegur.