Taktur endurhæfing
Í Takti er boðið upp á sérhæfða og fjölbreytta hópþjálfun og endurhæfingu fyrir fólk með Parkinson og skylda sjúkdóm og er miðuð að þeim sem eru fullfær um allar athafnir daglegs lífs og búa sjálfstætt. Félagsmenn í Parkinsonsamtökunum geta óskað eftir að skráningu í endurhæfingu og fá þá viðtal við hjúkrunarfræðing þar sem þjónustuþörf er metin og endurhæfingaráætlun er unnin út frá þörfum hvers og eins. Endurhæfingin styður við sjálfstæði og virkni í daglegu lífi, dregur úr einkennum Parkinson, eflir bjargráð og eykur lífsgæði. Þjálfun í Takti hentar síður þeim sem eru komin með líkamleg eða vitsmunaleg einkenni sem kalla á persónulegan stuðning í athöfnum, en mat á því getur farið fram í ráðgjafaviðtali hjá hjúkrunarfræðingi.
Í Takti er lögð áhersla á hreyfingu og virkni, þar eru fjölmargir tímar í viku hjá íþróttakennara í sal, ásamt jógatímum og slökun. Raddæfingar, vatnslitamálun og opin vinnustofa eru einu sinni í viku og samsöngur aðra hverja viku. Konu- og karlakaffi eru vikulega, en jafningjastuðningur og félagsskapur eru mikilvægir þættir í endurhæfingu og að auki eru reglulega stuðningshópar fyrir fólk með Parkinson, makahópur og MSA hópur sem eru allir leiddir af fagaðila.
Sjúkraþjálfarar starfa hjá Takti, en slík þjálfun leggur mikilvægan grunn þegar kemur að þeim hluta meðferðar við sjúkdómnum og mælt er eindregið með að fólk með Parkinson sé undir umsjón og mæti reglulega til sjúkraþjálfara í persónulegt mat og meðferð.
Hægt er að skrá sig í talþjálfun hjá talmeinafræðingi í gegnum heimasíðu, en að auki starfar iðþjálfi, félagsráðgjafi, sálfræðingar, næringarfræðingur og fjölskyldurfræðingur fyrir Takt, en tilvísun til þeirra fer fram í gegnum ráðgjöf hjá hjúkrunarfræðingi Takts.