Taktur endurhæfing

Taktur endurhæfing Parkinsonsamtakanna er ætluð fólki sem hefur fengið greiningu á Parkinson eða Parkinsonskyldum sjúkdómi. Endurhæfing hjá Takti er í boði frá greiningu og þar til þörf er á sértækari úrræðum, svo sem dagþjálfun.

Endurhæfing í Takti miðar að því að:

  • halda aftur af framgangi sjúkdómsins með markvissri þjálfun og endurhæfingu
  • viðhalda líkamlegri, hugrænni og félagslegri færni
  • auka virkni og þátttöku með hvatningu, fræðslu og stuðningi
  • stuðla að auknum lífsgæðum og sjálfstæði

Endurhæfing er órjúfanlegur hluti meðferðar við Parkinsonsjúkdómi. Markviss endurhæfing getur hægt á framgangi sjúkdómsins, minnkað einkenni, bætt lífsgæði og stutt við sjálfstæði í daglegu lífi.

Þjónustuþegar Takts fá aðgang að sérhæfðri sjúkraþjálfun, þar sem boðið er upp á hópþjálfun með áherslu á þol, styrk, göngu og jafnvægi.

Í Takti er unnið út frá hugmyndafræði iðjuþjálfunar, þar sem áhersla er lögð á að efla færni til að sinna athöfnum daglegs lífs. Boðið er upp á fjölbreytta tíma í stundaskrá sem styðja við líkamlega, hugræna og félagslega færni, meðal annars:

  • raddæfingar
  • vatnslitamálun
  • jóga
  • jóga nidra
  • slökun og handavax

Þjónustuþegar í Takti fá aðgang að Abler appinu til að skrá sig í tímana en nauðsynlegt er að skrá sig til að tryggja sér sæti. Það er mismunandi hvaða tímar eru í boði hverju sinni og tekið er mið af þörfum og áhugasviði notenda. Þar að auki bjóða Parkinsonsamtökin öllum félagsmönnum upp á viðburði sem þjónustuþegar Takts geta einnig nýtt sér og má þar nefna samsöng, stuðningshópa, námskeið og félagsstarf

Þjónusta Takts er að mestu leyti gjaldfrjáls en greiðsluþáttaka er fyrir einstaklingtíma hjá talmeinafræðingi.

Hægt er að kaupa léttan hádegisverð mánudaga til fimmtudaga, sem þarf að bóka með dags fyrirvara.

Taktur er í Lífsgæðasetri St. Jó (gamla St. Jósefsspítala), Suðurgötu 41 í Hafnarfirði.

Opnunartími er mánudaga–fimmtudaga kl. 9:00–15:30 og föstudaga kl. 9:00–12:00

Forstöðumaður Takts er Ágústa Kristín Andersen, hjúkrunarfræðingur.