Sex aðilar hafa verið tilnefndir til Íslensku lýðheilsuverðlaunanna sem forseti Íslands efnir til í fyrsta sinn í vor. Kallað var eftir hugmyndum að verðugum verðlaunahöfum frá almenningi og bárust hátt í 350 tillögur. Dómnefnd hefur nú tekið þær til umfjöllunar og tilnefnt þrjú verkefni í hvorum af eftirfarandi tveimur flokkum; flokki einstaklinga og flokki fyrirtækja/samtaka/stofnana.
Okkar allra besti Snorri Már Snorrason er tilnefndur í flokki einstaklinga en í tilkynningu dómnefndar segir: Snorri Már hefur barist við parkinsonssjúkdóminn í 19 ár og í þeirri baráttu er hreyfingin hans helsta vopn. Hann hefur verið óþreytandi við að benda á gagnsemi þess að stunda hvers konar hreyfingu, ekki bara sem forvörn gegn heilsuleysi heldur líka sem meðferð við sjúkdómnum og til þess að halda niðri sjúkdómseinkennum ólæknandi sjúkdóma.
Til hamingju Snorri Már með tilnefninguna og takk fyrir hvatninguna!