Reykjavíkurmaraþon 2019

Það er mikið um að vera laugardaginn 24. ágúst en bæði Reykjavíkurmaraþon og Menningarnótt setja svip sinn á borgina þennan dag.

Parkinsonsamtökin eru eitt af þeim góðgerðarfélögum sem hlauparar í maraþoninu geta styrkt með áheitasöfnun. Nú þegar hefur glæsilegur hópur hlaupara valið að safna áheitum fyrir Parkinsonsamtökin en á heimasíðunni www.hlaupastyrkur.is má sjá lista yfir þennan flotta hóp. Við hvetjum alla til að senda áheit og styrkja samtökin því margt smátt gerir eitt stórt.

Margir hafa lagt mikið á sig í undirbúningi fyrir maraþonið og við viljum að sjálfsögðu styðja vel við bakið á hlaupurunum okkar og hvetja þau áfram í hlaupinu. Við verðum með hvatningarstöð á Suðurströnd, við sundlaug Seltjarnarness. Við ætlum að hittast þar kl. 8.45 á laugardaginn, rétt áður en við gerum ráð fyrir að fyrstu hlaupararnir í 21km og 42km fara fram hjá. Hlaupararnir í 10km hlaupinu verða svo á Suðurströnd rétt fyrir kl. 10 og við gerum ráð fyrir að vera á svæðinu til kl. 10.45. Það er mikil umferð í bænum og mikilvægt að leggja snemma af stað til að komast á leiðarenda á réttum tíma. Allir eru hvattir til að mæta með trommur, flautur eða hvað annað sem gefur frá sér skemmtileg og hvetjandi hljóð.

Á undanförnum árum hafa þátttakendur í hlaupinu tekið það ítrekað fram við skipuleggjendur hversu ánægðir þeir eru með hvatninguna frá góðgerðafélögunum á hlaupaleiðinni og við ætlum ekki að slá slöku við í hvatningunni þetta árið. Þeir sem eiga Parkinsonboli eru hvattir til að mæta í þeim á hvatningarstöðin til að hópurinn verði sýnilegri.

Það er gott að leggja tímanlega af stað þar sem einhver truflun verður á umferð og t.d. verður einstefna vestur Ægisíðu og Nesveg og austur Eiðsgranda.

Við ætlum að fjölmenna á hvatningarstöðina og hvetja okkar fólk – vonum að allir mæti með læti.