Göngu-hugleiðsluæfingar

Hugleiðsluæfingar frá Gunnhildi Heiðu, fjölskyldufræðingi

Þegar við erum á göngu út í náttúrunni er mikilvægt að leyfa sér að slaka á og opna fyrir heilandi mátt náttúrunnar og næra þannig huga og líkama. Náttúran er lifandi og býr yfir heilandi mætti og því mikilvægt að finna leið til þess að opna fyrir þennan mátt inn í huga og líkama.

Byrjaðu á því að anda rólega inn og út og hafðu um stund athyglina á önduninni, þessari bylgjukenndu hreyfingu inn- og útöndunar og finndu fyrir þeim róandi áhrifum sem öndunin hefur á huga og líkama. Færðu síðan athyglina yfir á líkamann, hreyfingar hans eins og  hvernig fæturnir snerta jörðina, hvernig þú hreyfir handleggina, finndu þessa orku sem skapast með hreyfingunni. Opnaðu fyrir skynjun, hlustaðu eftir náttúruhljóðum og leyfðu þér að slaka á og tengja skilningarvitin við náttúruhljóðin sem fyrir eru. Finndu kraftinn innra með þér með því að draga djúpt andann öðru hvoru og finndu hvernig hann sameinast orkunni í náttúrunni. Opnaðu fyrir þennan kraft sem býr í náttúrunni inn í huga og líkama og finndu hvernig hann nærir og endurnýjar.

Að njóta veðurbrigðanna

Þegar sól er úti, finndu á hörundi þínu hvernig sólin skín á þig og hvernig hún styrkir og heilar þig. Finndu þegar þú dregur djúpt að þér andann hvernig geislar sólarinnar smeygja sér inn í líkama þinn með andardrættinum. Finndu hitann á húð þinni og taktu geisla sólarinnar inn í  líffærin og sjáðu í huga þér hvernig þau styrkjast við það. Leyfðu þér að kalla fram vellíðan og hugsaðu uppbyggilegar hugsanir. Sjáðu þig fyrir þér í þínu besta formi.

Þegar vindurinn blæs, finndu hvernig þú nýtir þér vindinn til að hreinsa þig, leyfa honum að feykja öllu burt sem þú vilt losna við. Skynjaðu um leið líkama þinn, hvernig hann styrkist og verður hreinn, frjáls og fullkomlega heilbrigður.

Þegar rignir, finndu hvernig regnið hreinsar og styrkir húð þína, skolar burtu erfiðum tilfinningum o.s.frv. (nota hugmyndaflugið).

Það er mikilvægt að þú hugsir fallega um þig og sjáir þig fyrir þér í þínu besta formi. Hugsaðu um hvað þú eigir gott með að hreyfa þig, því hugsunin hefur áhrif á líðan þína.

Æfing við árbakka

Við erum svo heppin að hafa náttúruna alls staðar í kringum okkur. Ég hef t.d. Elliðarárdalinn í göngufæri við mig og ég elska að ganga þar um, njóta nið árinnar sem liðast um dalinn. Ein af mínum uppáhaldsæfingum og ég hef gert í mörg ár er á bogabrúnni þegar gengið er út í hólmann. Mig langar að deila henni með ykkur.

Þar sem ég stend á brúnni og nýt þess að sjá og hlusta á ánna renna í átt til mín og finna svalann af henni, dreg ég andann að mér og fylli líkama minn af þessari tæru orku sem fylgir streymi árinnar og nið.

Ég gef mér tíma til að upplifa þennan ferskleika um stund, síðan sé ég fyrir mér, hvernig ég fæ lánaða smá bunu úr ánni og tek bununa yfir mig.

Ég kalla fram hughrif, með því að finna hvernig bunan fer yfir mig og ég finn svalann af henni og hvernig húðin mín skynjar svalann sem streymir niður eftir öllum líkama mínum. Síðan sé ég fyrir mig að ég leyfi bununni að fara inn og niður í gegnum hvirfilinn og inn í  huga minn og taka þaðan alla þreytu og allt sem ég vill losna við.

Síðan hvernig hún fer inn í allan líkama minn og skolar burtu öllu sem ég vil losna við, hvort sem það er þreyta, verkir eða hvað sem það nú er sem ég vil losna við. Á þennan hátt losa ég mig við allt sem mig langar til að hreinsa mig af og finn og upplifi mig algjörlega endurnýjaða. Að lokum þakka ég  fyrir mig og held áfram göngu minni.

Almennt þegar við erum að ganga við læk er upplagt að gefa sér tíma til að hlusta á niðinn í læknum og sjá og skynja hvernig hann líður áfram, svo léttur, svo áreynslulaus. Gefa sér tíma til að heyra hjalið í honum og leyfa okkur að taka inn þennan tærleika og skynja þessa hreyfingu. Finna samhljóm við árniðinn og andadrátt okkur. Leyfa okkur að njóta þess að vera í þessu tæra svala áreynslulausa flæði. Opna fyrir tærleikann og ferskleikann og  leyfa honum að leika um  huga og líkama. Leyfa þessari orku og tærleika sem þú skynjar að vera partur af þér og hvernig þú opnar fyrir þetta hreina fallega orkuflæði.