fbpx

Opinber þjónusta


Félagsleg heimaþjónusta

Þjónustan er fyrir fólk sem býr í heimahúsum og getur ekki séð hjálparlaust um heimilishald og persónulega umhirðu vegna skertrar færni. Einnig aðstoð við þrif, heimsendur matur, innlit og stuðningur ýmis konar. Sótt er um þjónustuna hjá félagsþjónustunni. Reglur um félagslega heimaþjónustu í þínu sveitarfélagi getur þú fundið með því að smella hér


Akstursþjónusta

Þegar sjúklingur með parkinsonsjúkdóm hættir að keyra bíl er hægt að sækja um akstursþjónustu. Umsókn um akstursþjónustu má nálgast hjá félagsþjónustu hvers sveitarfélags fyrir sig og á þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar


Heimsendur matur

Heimsendur matur er ætlaður þeim sem geta ekki annast matseld sjálfir og hafa ekki tök á að borða í næstu félagsmiðstöð. Öllum sveitarfélögum ber skylda til að bjóða upp á heimsendan mat til þeirra sem metnir eru í þörf fyrir slíka þjónustu.


Heimahjúkrun

Hjúkrunarfræðingar sinna heimahjúkrun með það að markmiði að styðja við búsetu í heimahúsi svo lengi sem mögulegt er. Sækja þarf sérstaklega um heimahjúkrun í sínu sveitarfélagi. Nánar má lesa um verksvið heimahjúkrunar með því að smella hér


Sérhæfð dagþjálfun

Í MS-Setrinu er dagþjálfun með sérhæfðri endurhæfingu fyrir fólk með parkinson, MS, MND og aðra taugasjúkdóma. Markmið MS-Setursins er að styrkja og styðja einstaklinga með taugasjúkdóma til þess að takast á við þær áskoranir sem geta skapast í daglegu lífi.  Þar er veitt fjölbreytt og fagleg þjónusta í von um að stuðla að aukinni virkni og vellíðan.

Hægt er að sækja um dagdvöld í MS-Setrinu 1-4 daga í viku. Í MS-Setrinu er boðið upp á umönnun, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, vinnustofu og félagsstarf. Boðið er upp á morgunmat, heitan hádegisverð og síðdegiskaffi. Félagsráðgjafi MS-Setursins veitir upplýsingar um tryggingamál, félagsleg réttindi, þjónustu og húsnæðismál, ásamt hjóna- og fjölskylduviðtölum. Nánari upplýsingar um þjónustu og dagskrá má finna hér.

Til þess að sækja um dagdvöl í MS-Setrinu þarf að hafa beiðni frá heimilislækni eða taugalækni og hafa samband við Ingibjörgu Ólafsdóttur forstöðumann MS-Setursins í s. 568-8680 eða með tölvupósti á netfangið: ingibjorg@mssetrid.is.


Hjúkrunarheimili

Hjúkrunarheimili eru ætluð öldruðu fólki sem er of lasburða til að geta búið heima með þeim stuðningi sem er í boði, svo sem heimaþjónustu, heimahjúkrun, dagdvöl, hvíldarinnlögn eða búsetu í dvalarrými. Í hjúkrunarrými skal veitt hjúkrunar- og læknisþjónusta auk endurhæfingar og annarrar þjónustu. Á mörgum hjúkrunarheimilum og heilbrigðisstofnunum er boðið upp á hvíldar- eða endurhæfingarinnlagnir fyrir aldraða.

Í hverju heilbrigðisumdæmi starfar sérstök færni- og heilsufarsnefnd sem metur þörf fólks fyrir tímabundna hvíldarinnlögn eða varanlega búsetu á hjúkrunarheimili. Nánari upplýsingar um færni- og heilsumatsnefndir eru á vef Embættis landlæknis.


Spítaladeildir

Sérhæfð göngudeildarþjónusta fyrir fólk með parkinsonsjúkdóm er á dag- og göngudeild taugalækningadeildar á Landspítalanum. Á deildinni eru gerðar eru ýmsar rannsóknir til greininga á sjúkdómum í mið- og úttaugakerfi. Þjónustu veita læknar, hjúkrunarfræðingar, næringarráðgjafar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, talmeinafræðingar, félagsráðgjafar, prestar, ritarar og sálfræðingar.

Sjúkrahúsið á Akureyri er með lyflækningadeild sem sinni m.a. fólki með parkinson og aðra taugasjúkdóma.


Einkarekin heimaþjónusta

Til eru fyrirtæki sem sérhæfa sig í að veita fjölbreytta velferðarþjónustu og aðstoð við athafnir daglegs lífs. Slíka þjónustu er hægt að kaupa óháð mati sveitarfélaga á þjónustuþörf. Hana má nýta meðan beðið er eftir úrræði á vegum sveitarfélaga eða til viðbótar við hefðbundna heimaþjónustu og heimahjúkrun. 

Í Reykjavík eru tvö slík fyrirtæki: Sinnum og Vinun
Á Akureyri er eitt slíkt fyrirtæki: Umhuga