7 góð ráð við hjúkrun Parkinsonsjúklinga

1. Gefðu lyfin alltaf á réttum tíma

  • Skrá lyfjafyrirmæli nákvæmlega strax við innlögn sjúklings – ekki má breyta lyfjatímum þó að þeir passi ekki við hefðbundna lyfjagjafatíma á stofnun.
  • Fái Parkinsonsjúklingar ekki lyfin sín á réttum tíma geta þeir orðið hættulega stirðir og ófærir um að kyngja og hreyfa sig.
  • Þurfi sjúklingar að fasta fyrir skurðaðgerðir eða ef þörf er á annarri lyfjameðferð en um munn (t.d. vegna kviðarholsaðgerðar eða vegna langvarandi fasta) er nauðsynlegt að leita ráðleggingar hjá hjúkrunarfræðingi á göngudeild eða taugalækni á B2.

2. Gefðu lyfin a.m.k. 1/2 klst. fyrir mat

  • Best er að gefa lyfin með vatnsglasi eða ávaxtagraut/eplamauki.
  • Forðist mjólk, rjóma, súrmjólk og ís samtímis lyfjainntöku. Mjólkurvöru ætti ekki að neyta fyrr en a.m.k. hálftíma eftir lyfjagjöf.
  • Forðatöflur má ekki mylja.
  • Dæmi um algenga tíma fyrir lyfjagjöf: 07.00 – 09.30 – 11.30 – 14.00 – 16.30 – 19.00 – 22.00
  • Dæmi um matmálstíma sem passa við lyfjatímana: 08.00 – 10.00 – 12.00 – 15.00 – 18.00 – 20.00

3. Lyf sem ætti að forðast

  • Forðast geðlyf eins og haloperidol (Haldol), risperidone og olanzapine. Nota frekar Seroquel (quetiapin).
  • Forðast lyf við ógleði svo sem Stemitil og Primperan. Nota frekar domperidon (motilium) eða ondansetron (zofran).
  • Einnig auka sum antihistamín stirðleika.

4. Efling hreyfi- og sjálfbjargargetu

  • Útvega viðeigandi hjálpartæki í samvinnu við sjúkra- og iðjuþjálfara ef sjúklingur er hræddur við að detta.
  • Ef sjúklingur frýs getur hjálpað að telja upphátt 1-2. 1-2 eða syngja taktfast „Göngum upp í gilið“. Einnig er hægt að hvetja sjúklinga til að telja í huganum. Rendur á gólfi, ójafnt landslag hentar vel.
  • Smá „verkefni“ geta hjálpað sjúklingi að komast af stað eins og að fleygja lyklakippu á gólfið, beygja sig niður og taka upp.
  • Ekki tala of mikið við sjúkling eða í kringum sjúkling þegar hann framkvæmir athafnir.
  • Gefa ein fyrirmæli í einu og gera eitt í einu þ.e. ekki ganga og halda á hlut, ekki ganga og tala o.s.frv.
  • Viðeigandi klæðnaður t.d. franskir rennilásar á skyrtur og íþróttaföt.
  • Rafmagnstannbursti.

5. Réttstöðu lágþrýstingur

  • Við innlögn á að mæla blóðþrýsting liggjandi og standandi hjá Parkinsonsjúklingum a.m.k. 2svar á dag í 3 daga.
  • Forðist skyndilegar stöðubreytingar og sofa með 15-30 cm halla á höfuðlagi.
  • Drekka 1-2 glös af vatni 1/2 til 1 klst. áður en farið er framúr að morgni. Kaffibolli í rúmið gæti hjálpað.
  • Auka daglega vökvainntekt og salta matinn aukalega.
  • Nota teygjusokka yfir daginn – helst sem ná upp í nára.
  • Ef sjúklingur vill hvíla sig að deginum til er gott að setjast í hægindastól sem má halla aftur (t.d. lazy-boy).

6. Sársauki

  • Algengustu orsakir vöðvaverkja hjá einstaklingum með Parkinsonsjúkdóm er skortur á dópamíni í heila. Verkirnir koma oftast á nóttunni eða snemma morguns.
  • Hægt að gefa auka skammt af Madopar sem verkjastillandi.

7. Hægðatregða – Lyfjameðferð

  • Magnesia Medic 500mg töflur, 1-2 stk. x 1-2svar daglega.
  • Movicol duft 1 bréf x 1-3svar á dag. Duftið er blandað í hálft glas af vatni. Bragðbæta má með því að bæta ávaxtasafa útí.

 

Texti: Jónína H. Hafliðadóttir og Marianne E. Klinke, hjúkrunarfræðingar á B2