fbpx

Vorferð 2018 – Ferðasaga

Laugardaginn 5. maí var farið í vorferð Parkinsonsamtakanna. Ferðin var vel heppnuð þó svo að veðrið léki ekki við okkur að öllu leyti, þetta var svona sýnishornaveður með öllu, má segja. Við vorum 25 í ferðinni og auðvitað vorum við með besta bílstjórann.

Við ókum af stað frá Mjóddinni kl 10.30 og var keyrt austur í Flóa en þar var tekinn hringur undir skemmtilegri leiðsögn Aðalsteins Sveinssonar en hann er  bóndi í Kolsholti og varaformaður Parkinsonsamtakanna. Klukkan 12 var stoppað á Hótel Vatnsholti og þar var borin á borð dýrindis kjötsúpa ásamt sérstaklega góðu brauði sem var bakað á staðnum.  Þarna var stoppað í rúma klukkustund og mikið spjallað og hlegið.

Eftir matinn var ekið að safninu Tré og List sem er á bænum Forsæti í Flóa á bökkum Þjórsár. En það eru  hjónin Bergþóra og Ólafur sem standa fyrir safninu, en þau hafa breytt fyrrverandi fjósi í sérlega góða og skemmtilega aðstöðu til sýninga og kynningar á handverki og listmunum. Meðal þess sem er til sýnis í Tré og list eru gömul verkfæri, ljósmyndir af veðurfari eftir Ólaf og síðast en ekki síst listmunir eftir Siggu á Grund.

Eftir að hafa skoðað safnið og spallað við þau hjónin og Siggu á Grund var ekið heim að bænum Kolsholti þar sem Aðalsteinn og Kolbrún búa og reka búið ásamt börnum og tengdabörnum. Aðalsteinn og Kolbrún buðu okkur að skoða fjósið og allt þar um kring og við vorum svo heppin að nokkur lömb höfðu þegar litið dagsins ljós. Siðan buðu aðalsteinn og Kolbrún  uppá kaffi og meðlæti, sem var vel tekið. Heimferðin gekk vel og vorum við komin í bæinn á áætluðum tíma.

Mig langar að þakka fyrir skemmtilegan dag og góðan félagsskap. Og sérstaklega vildi ég þakka Aðalsteini fyrir leiðsögnina um Fóann. Og þeim hjónum fyrir einstakt heimboð að Kolsholti.

Með bestu kveðju,
Vilborg Jónsdóttir, formaður Parkinsonsamtakanna.