Samkomulag um framkvæmdir á 3. hæð í St. Jó

Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa og Hafnarfjarðarbær undirrita samkomulag um framkvæmdir við þjónustumiðstöðvar Alzheimer- og Parkinsonsamtakanna í St. Jó

Síðasta vetrardag gengu Styrktar- og líknarsjóður Oddfellowa (StLO) og Hafnarfjarðarbær frá samkomulagi um framkvæmdir við þjónustumiðstöðvar Alzheimer- og Parkinsonsamtakanna á 3. hæð á Lífsgæðasetri St. Jó við Suðurgötu 41 í Hafnarfirði. Unnið hefur verið að útfærslu samkomulagsins á síðustu vikum en það felur í sér að StLO sjái alfarið um framkvæmdir á 3. hæð og beri kostnað vegna þeirra gegn því að Hafnarfjarðarbær geri leigusamninga við Alzheimer- og Parkinsonsamtökin til 15 ára.

Undirritun samkomulagsins. Vilborg Jónsdóttir formaður Parkinsonsamtakanna, Steindór Gunnlaugsson formaður StLo, Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar og Árni Sverrisson formaður Alzheimersamtakanna.

Alzheimer- og Parkinsonsamtökin munu á 3. hæð Lífsgæðasetursins setja á fót þjónustumiðstöðvar fyrir einstaklinga með parkinson og fólk sem hefur nýlega greinst með heilabilun. Þjónustumiðstöðvunum er ætlað að vinna markvisst að því að viðhalda lífsgæðum þeirra sem veikjast með alhliða þjálfun og ráðgjöf ásamt því sem aðstandendur þeirra fá fræðslu og stuðning.

Það er einstaklega ánægjulegt að ganga frá samkomulagi um þetta mikilvæga verkefni. Hafnarfjarðarbær er heilsueflandi samfélag og liður í því er að endurvekja gamla St. Jósefsspítalann og glæða hann lífi með starfsemi sem hefur að markmiði að viðhalda og efla lífsgæði fólks. Starfsemi Alzheimer- og Parkinsonsamtakanna á 3. hæð hússins til næstu 15 ára er mikilvæg kjölfesta í starfsemi þess til framtíðar. Hafnarfjörður er jafnframt heilavinabær sem felur í sér að við höfum skuldbundið okkur til þess að þróa samfélag sem er vinveitt, styðjandi og meðvitað um þarfir fólks með heilabilun og aðstandendur þess. Þetta verkefni er klárlega stórt skref í þá átt“ segir Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

Aðstandendur samkomulagsins. Steindór Gunnlaugsson formaður StLo, Vilborg Jónsdóttir formaður Parkinsonsamtakanna, Magnús Sædal byggingarstjóri StLo, Ragnheiður Agnarsdóttir verkefnisstjóri Lífsgæðaseturs St. Jó, Ólöf Pálsdóttir gjaldkeri StLo, Árni Sverrisson formaður Alzheimersamtakanna, Ágúst Bjarni Garðarsson formaður bæjarráðs Hafnarfjarðar og Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri Hafnarfjarðar.

 Fréttin birtist fyrst á www.hafnarfjodur.is