fbpx
Parkinsonsamtökin

Reykjavíkurmaraþon 18. ágúst

Ljósmynd: rmi.is

Nú er undirbúningur fyrir Reykjavíkurmaraþonið í hámarki. Fjölmargir hlauparar hafa ákveðið að safna áheitum fyrir Parkinsonsamtökin en hægt er að sjá lista yfir alla hlauparana hér og heita á þá. Áheitasöfnunin er mikilvæg fjáröflun fyrir samtökin og skiptir miklu máli fyrir starfsemina.

Leggðu samtökunum lið með því að heita á einhvern af þessum flottu hlaupurum því margt smátt gerir eitt stórt!

Parkinsonsamtökin verða með bás á skráningarhátíðinni Fit & Run Expo í Laugardalshöllinni fimmtudaginn 16. ágúst kl. 15-20 og föstudaginn 17. ágúst kl. 14-19. Skráningarhátíðin er opin fyrir þátttakendur í Reykjavíkurmaraþoni og fyrir almenna gesti og því geta allir komið við á básnum okkar.

Hlaupararnir sem hlaupa fyrir Parkinsonsamtökin fá glæsilegan bol hannaðan af Hugleiki Dagssyni á skráningarhátíðinni og við hvetjum alla hlauparana til að koma við á básnum okkar og fá bol til að nota í hlaupinu.

Parkinsonsamtökin verða að venju með hvatningarstöð í hlaupinu sjálfu laugardaginn 18. ágúst. Allir félagsmenn geta tekið þátt og verið með á hvatningarstöðinni sem verður staðsett á bílastæðinu við Sundlaug Seltjarnarness. Við ætlum að hittast þar kl. 8.45 á laugardaginn, rétt áður en við gerum ráð fyrir að fyrstu hlaupararnir í 21km og 42km hlaupa fram hjá. Hlaupararnir í 10km hlaupinu verða svo á Suðurströnd rétt fyrir kl. 10 og við gerum ráð fyrir að vera á svæðinu til kl. 10:45.

Það er gott að leggja tímanlega af stað þar sem einhver truflun verður á umferð og t.d. verður einstefna vestur Ægisíðu og Nesveg og austur Eiðsgranda en upplýsingar um takmarkanir á umferð og lokanir má sjá hér.

Komdu á hvatningarstöðina á laugardaginn og hjálpaðu okkur við að hvetja hlauparana okkar áfram!