fbpx

Parkinsdóttir á leiknum á móti Þýskalandi á laugardaginn

Parkinsonsamtökin eru í samstarfi við KSÍ um kynningar- og fjáröflunarverkefni fyrir Parkinsonsetur sem verður fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Þar verður boðið upp á fræðslu, endurhæfingu, ráðgjöf og stuðning fyrir fólk með parkinson og aðstandendur þeirra. Í Parkinsonsetrinu verður einnig dagvist með sérhæfðri endurhæfingu fyrir fólk með langt genginn parkinsonsjúkdóm, en það er gríðarlega mikil þörf á þeirri þjónustu. KSÍ leggur þessu þarfa verkefni lið með því að taka virkan og öflugan þátt í árveknisátaki um verkefnið og parkinsonsjúkdóminn.

Leggðu söfnuninni lið með því að hringja í síma:
907-1501 fyrir 1.000 kr.
907-1503 fyrir 3.000 kr.
907-1505 fyrir 5.000 kr.
907-1510 fyrir 10.000 kr.

Fyrir leikinn við Þýskaland laugardaginn 1. september verður sýnt myndband af Vilborgu Jónsdóttur, formanni Parkinsonsamtakanna, bæði á risaskjá á vellinum sjálfum og í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport. Þá munu kvennalið Parkinsonsamtakanna, sem samanstendur af 11 konum með parkinsonsjúkdóminn, stilla sér upp úti á velli og verða þar þegar keppnisliðin ganga inn á völlinn. Á meðan þjóðsöngvar verða leiknir mun Parkinsonliðið standa við hlið leikmanna í byrjunarliði Íslands. Liðsmyndin verður tekin af Parkinsonliðinu og byrjunarliði Íslands og verður þannig af 22 manna liði. Undir þjóðsöngnum munu Parkinsonliðið og leikmennirnir klæðast sérmerktum fatnaði merktum „Parkinsdóttir“ og númerinu 2 , þar sem Ísland er í 2. sæti yfir hæstu dánartíðni vegna parkinsonsjúkdómsins í heiminum. Sams konar verkefni var unnið í tengslum við vináttuleik A landsliðs karla gegn Gana fyrr í sumar.

Við hvetjum alla félagsmenn til að taka þátt í þessum stóra viðburði hjá Parkinsonsamtökunum með því að kaupa miða á leikinn (ath! uppselt) eða með því að horfa á beina útsendingu á Stöð 2 Sport í opinni dagskrá sem hefst kl. 14:00.

Heimasíða verkefnisins er sigrumparkinson.is