Lög Parkinsonsamtakanna á Íslandi

1. GREIN: NAFN, HEIMILI OG AÐILD

Nafn samtakanna er Parkinsonsamtökin á Íslandi, hér eftir nefnt Parkinsonsamtökin.
Heimili og varnarþing Parkinsonsamtakanna er í Reykjavík.
Samtökin eru aðili að Öryrkjabandalagi Íslands (ÖBÍ).
Parkinsonsamtökin geta átt aðild að samtökum, innlendum eða erlendum samkvæmt tillögu stjórnar og þarf slík tillaga að hljóta samþykki aðalfundar til að öðlast gildi.

2. GREIN: MARKMIÐ OG HLUTVERK

Tilgangur samtakanna er að stuðla að auknum lífsgæðum til handa fólki með parkinsonsjúkdóm, fólki með parkinsonskylda sjúkdóma og fjölskyldum þeirra með því m.a. að:

 • Standa vörð um réttindi þeirra og hagsmuni.
 • Með fræðslu og útgáfustarfsemi um málefni félagsmanna og fjölskyldna þeirra.
 • Stuðla að rannsóknum og aukinni þekkingu á sjúkdómnum og möguleikum á meðferð við honum.
 • Vera vettvangur fyrir parkinsonsjúka, fólk með parkinsonskylda sjúkdóma og aðstandendur til gagnkvæms stuðnings.
3. GREIN: FÉLAGAR Í PARKINSONSAMTÖKUNUM

Félagar í Parkinsonsamtökunum er fólk með parkinsonsjúkdóm eða fólk með parkinsonskylda sjúkdóma, aðstandendur þeirra og aðrir sem áhuga hafa á málefnum samtakanna og/eða vilja styðja við samtökin, óháð búsetu.

4. GREIN: DEILDIR INNAN SAMTAKANNA
 • Innan Parkinsonsamtakanna geta starfað deildir eftir búsetu. Í hverri deild þurfa að vera að lágmarki 10 félagar. Ekki getur verið nema ein deild í hverju bæjar- eða sveitarfélagi, en starfssvæði deildar getur náð yfir fleira en eitt sveitarfélag. Allir félagsmenn í Parkinsonsamtökunum geta tekið þátt í starfi deildanna.
 • Félagsmenn í deildum eru jafnframt félagsmenn í Parkinsonsamtökunum og hafa kjörgengi og kosningarétt á aðalfundi Parkinsonsamtakanna.
 • Þar sem ekki eru starfandi deildir standa Parkinsonsamtökin vörð um réttindi og hagsmuni parkinsongreindra.
 • Stuðningshópar geta verið starfandi innan Parkisonsamtakanna og deilda.
5. GREIN: STOFNUN DEILDA

Félagsmenn geta sótt um að stofna deild innan samtakanna með því að senda beiðni til stjórnar Parkinsonsamtakanna með minnst 30 daga fyrirvara fyrir aðalfund Parkisonsamtakanna. Með beiðninni skal fylgja afrit af lögum deildarinnar, ásamt upplýsingum um stjórn og skrá yfir félagsmenn sem tilheyra deildinni. Aðalfundur Parkinsonsamtakanna þarf að samþykkja beiðni um nýstofnaða deild að tillögu stjórnar.

6. GREIN: SKÝRSLUR, AÐALFUNDUR OG INNHEIMTA FÉLAGSGJALDA DEILDA

Deildirnar skulu fyrir lok febrúar ár hvert senda stjórn Parkinsonsamtakanna skýrslu um starfsemi þeirra fyrir nýliðið ár, rekstrarreikning þess árs og fjárhagsstöðu í lok ársins, ásamt uppfærðu félagatali eins og það stóð 1. janúar sama ár. Deildirnar skulu halda aðalfund árlega og kjósa sér stjórn (lágmark þrjá stjórnarmenn) og skal tilkynning um stjórnarkjörið berast stjórn Parkinsonsamtakanna innan mánaðar frá aðalfundi deildarinnar.

Parkinsonsamtökin annast innheimtu félagsgjalda fyrir deildirnar. Umsýslugjald deildanna til Parkinsonsamtakanna skal miðast við ákveðið hlutfall af árgjaldi félagsmanna deildanna hverju sinni og skal hlutfallið ákvarðað á aðalfundi Parkinsonsamtakanna samhliða ákvörðun um félagsgjöld fyrir yfirstandandi ár. Parkinsonsamtökin greiða félagsgjöldin til deildanna, að undanskildu umsýslugjaldi, fyrir lok aprílmánaðar og skal miða við fjölda skuldlausra félagsmanna í hverri deild 1. janúar sama ár.

7. GREIN: NÁNAR UM DEILDIRNAR
 1. Í nafni deildar þarf að koma fram heitið Parkinson og starfssvæði hennar.
 2. Deildunum er heimilt að starfrækja stuðningshópa innan síns starfssvæðis.
 3. Hver deild skal starfa að málefnum fólks með Parkinson á sínu starfssvæði. Að öðru leyti hafa deildirnar frjálsar hendur um sín innri mál og starf, en þurfa að starfa innan þessara laga Parkinsonsamtakanna ásamt samþykktum aðalfunda og stjórnar samtakanna. Samstarf er um sameiginleg verkefni Parkinsonsamtakanna.
 4. Einstakar deildir geta sótt um styrk til Parkinsonsamtakanna vegna sérstakra verkefna.
 5. Deildirnar hafa sjálfstæðan fjárhag og bera Parkinsonsamtökin ekki ábyrgð á fjárhag þeirra.
 6. Parkinsonsamtökin og einstakar deildir gera með sér samstarfssamning um þjónustu, upplýsingamál, sameiginleg hagsmunamál og kostnaðarskiptingu vegna þessa.
 7. Ef deild hættir störfum er ekki heimilt að ráðstafa eignum deildarinnar án samráðs við stjórn Parkinsonsamtakanna.
8. GREIN: AÐALFUNDUR PARKINSONSAMTAKANNA

Aðalfundur Parkinsonsamtakanna fer með æðsta vald í málefnum samtakanna og skal haldinn fyrir lok apríl ár hvert eftir ákvörðun stjórnar og velur stjórn fundarstað hverju sinni. Til aðalfundar skal boðað með minnst 14 daga fyrirvara bréflega eða með tölvupósti til félagsmanna eða með auglýsingu í dagblöðum. Í fundarboði skal tilgreina dagskrá aðalfundar.
Með kjörgengi og kosningarétt á aðalfundi Parkinsonsamtakanna fara þeir félagsmenn sem eru skuldlausir um gjaldfallin félagsgjöld við samtökin og eru orðnir 18 ára á degi aðalfundar.
Á aðalfundi hefur hver skuldlaus félagi 1 atkvæði. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

9. GREIN: AÐALFUNDUR PARKINSONSAMTAKANNA – DAGSKRÁ

Stjórn Parkinsonsamtakanna gerir tillögu að dagskrá aðalfundar og skal hún lögð fram og samþykkt í upphafi aðalfundar. Eftirfarandi dagskrárliðir skulu a.m.k. vera á dagskrá allra aðalfunda:

 1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
 2. Skýrsla stjórnar um starf samtakanna á liðnu ári lögð fram.
 3. Endurskoðaðir reikningar samtakanna lagðir fram.
 4. Umræður og afgreiðsla skýrslu stjórnar og reikninga.
 5. Fjárhagsáætlun fyrir næsta starfsár kynnt, rædd og afgreidd.
 6. Ákvörðun um árgjöld og umsýslugjald deilda.
 7. Lagabreytingar.
 8. Inntaka nýrra deilda.
 9. Stjórnarkjör.
 10. Kjör 2ja skoðunarmanna reikninga.
 11. Kjör 3ja manna í laganefnd.
 12. Önnur mál.
10. GREIN: STJÓRN PARKINSONSAMTAKANNA

Stjórn samtakanna skipa 5 menn og 2 til vara. Á hverjum aðalfundi er kosinn formaður til eins árs og tveir stjórnarmenn til tveggja ára í senn. Varamenn skulu kosnir til eins árs.
Stjórnin skiptir með sér verkum, kýs sér varaformann, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda. Formaður boðar til stjórnarfunda eins oft og þurfa þykir en þó skulu fundir aldrei vera færri en fjórir á ári. Halda skal stjórnarfund ef minnst tveir stjórnarmenn óska eftir því. Stjórnin er ályktunarhæf þegar minnst þrír stjórnarmenn eru mættir á stjórnarfund. Meirihluti atkvæða ræður ákvörðunum á stjórnarfundi en ef atkvæði eru jöfn er tillagan fallin.
Stjórnin ber ábyrgð á starfsemi samtakanna milli aðalfunda og skal starfa í samræmi við samþykktir hans. Meirihluti stjórnar getur skuldbundið samtökin fjárhagslega, án samþykkis félagsfundar, á grundvelli bókaðrar samþykktar meirihluta stjórnar, að fjárhæð sem nemur 2ja ára árgjöldum.
Stjórnin skipar 3 menn á aðalfund ÖBÍ og 3 til vara og einn fulltrúa í stjórn Setursins og einn til vara.

11. GREIN: FÉLAGSFUNDIR

Boða skal til félagsfundar svo fljótt sem unnt er ef formaður, meirihluti stjórnar eða a.m.k. fimmtungur félagsmanna krefst þess skriflega og leggur fram tillögu að dagskrá.

12. GREIN: REIKNINGAR

Reikningsár samtakanna er almanaksárið, reikningar skulu endurskoðaðir af 2 skoðunarmönnum sem kosnir voru á aðalfundi.

13. GREIN: LAGANEFND

Laganefnd sem kosin hefur verið á aðalfundi skal veita umsögn um tillögur að lagabreytingum sem fram koma til aðalfundar. Laganefnd og stjórn getur einnig komið fram með tillögur til lagabreytinga til aðalfundar.

14. GREIN: LAGABREYTINGAR

Lögum samtakanna má breyta á aðalfundi með samþykki 2/3 hluta fundarmanna enda hafi í upphafi fundar verið kannað um lögmæti fundarins. Tillögur til lagabreytinga skal senda til stjórnar fyrir 1. febrúar og skal stjórnin senda þær til félagsmanna með aðalfundarxboði ásamt umsögn laganefndar.

15. GREIN: SLIT

Komi fram tillaga um slit Parkinsonsamtakannna skal farið með hana eins og lagabreytingartilllögu. Þó fæst hún eigi afgreidd nema a.m.k. fimmtungur félagsmanna mæti á aðalfund. Ef ekki er tilskilin fundarsókn skal boða til framhaldsaðalfundar um tillöguna innan 1 mánaðar. Sá fundur getur afgreitt tillöguna án tilskilins fjölda fundarmanna. Verði samtökin lögð niður skal á sama fundi ráðstafa eignum þeirra í samræmi við tilgang samtakanna.

16. GREIN: GILDISTÍMI LAGA

Lög þessi eru samþykkt á aðalfundi Parkinsonsamtakanna 29. mars 2017 og öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi eldri lög Parkinsonsamtakanna.

Stuðningur þinn skiptir öllu máli

Gerast vildarvinur

Vildarvinir Parkinsonsamtakanna eru þeir sem sem kjósa að styrkja starfið með mánaðarlegu framlagi að eigin vali.

Stakur styrkur

Með stöku framlagi aðstoðar þú okkur við að veita margvíslega þjónustu eins og að efla fræðslu, forvarnir, ráðgjöf og stuðning.

Gerast félagi

Félagsaðild er opin öllum sem hafa áhuga á starfsemi Parkinsonsamtakanna. Með félagsaðild styður þú starfsemi Parkinsonsamtakanna.

FÁÐU RÁÐGJÖF HJÁ FAGFÓLKI

Ráðgjafar okkar veita fræðslu, ráðgjöf og stuðning við fólk með parkinson, parkinsonskylda sjúkdóma og aðstandendur þess.