Hreint styrkir Parkinsonsamtökin

F.v. Guðmundur Stefán Jónsson, Vilborg Jónsdóttir og Ari Þórðarson.

Hreint heldur árlega golfmót fyrir viðskiptavini sína, birgja og velunnara. Mótið í sumar fór fram á Urriðavelli og var það vel sótt að venju. Keppnin var skemmtileg og spennandi frá upphafi til enda en að lokum stóð Guðmundur Stefán Jónsson uppi sem sigurvegari. Skapast hefur sú hefð að aðalverðlaun mótsins er styrkur til góðgerðarmálefnis sem sigurvegarinn velur og nemur fjárhæðin 150.000 krónum.

Guðmundur Stefán valdi að styrktarféð rynni til Parkinsonsamtakanna. Styrkurinn kemur sér vel því samtökin eru með í undirbúningi að opna þjónustumiðstöð fyrir fólk með parkinson og skylda taugasjúkdóma í haust. Markmið miðstöðvarinnar er að auka lífsgæði og lífsgleði og verður hún til húsa þar sem Parkinsonsamtökin eru í dag, í gamla St. Jósefsspítala í hjarta Hafnarfjarðar.

Ari Þórðarson, framkvæmdastjóri Hreint, segir að fyrirtækið vilji láta gott af sér leiða með þessum hætti enda taki það samfélagábyrgð sína alvarlega. Hann segir að þetta sé sjötta árið í röð sem verðlaun mótsins renni til góðgerðarmála og sé það alltaf jafnánægjulegt að styrkja góð málefni.

Vilborg Jónsdóttir formaður Parkinsonsamtakanna tók nýverið á móti Ara og Guðmundi Stefáni og veitti styrknum frá Hreint viðtöku. Þakkaði hún kærlega fyrir hlýjan hug til Parkinsonsamtakanna og sagði að styrkurinn myndi nýtast vel.