Greining og meðferð

Greining
Þegar grunur kviknar um parkinsonsjúkdóm er fyrsti viðkomustaður ávallt hjá heimilislækni. Þeir sem ekki eru skráðir hjá heimilislækni geta haft samband við sína heilsugæslustöð og pantað næsta lausa tíma hjá lækni. Heilsugæslulæknir gerir viðeigandi athuganir og vísar fólki áfram þyki ástæða til þess. Sé þörf á frekari rannsóknum getur eitt af þrennu komið til greina:
- Endurkomutími á heilsugæslustöð
- Tilvísun til sérfræðings á stofu
- Tilvísun á dag- og göngudeild taugalækningadeildar Landspítalans
Stundum er hægt að staðfesta greiningu fljótt en það getur tekið marga mánuði eða jafnvel ár. Það getur verið erfitt að greina parkinsonsjúkdóminn þar sem það eru ekki til nein einföld próf sem gefa skýr svör. Einkennin geta verið breytileg milli einstaklinga og fjöldi annarra sjúkdóma hafa svipuð einkenni sem getur haft áhrif á greiningarferlið.
Margir fresta því að panta tíma hjá lækni vegna ótta við mögulegar niðurstöður en við hvetjum fólk til að leita sem fyrst til læknis ef grunur kviknar um parkinsonsjúkdóm. Með því að grípa til aðgerða fljótlega eftir að einkenni koma fram eru meiri líkur á að hægt sé að stjórna einkennunum og hægja á framvindu sjúkdómsins.

Hvað er kannað?
Læknirinn skoðar heilsufarssögu og leitar að einkennum parkinsonsjúkdóms: hægum hreyfingum, skjálfta, stífleika, jafnvægisleysi, skertu lyktarskyni ásamt öðrum einkennum. Læknirinn gæti beðið þig um að skrifa eða teikna, ganga og tala. Hann getur farið fram á blóðprufur, heilaskönnun eða aðrar slíkar rannsóknir til að útiloka að einkennin stafi af öðrum sjúkdómum.
Við mælum með því að fólk taki einhvern nákominn með sér til læknisins. Það getur reynst gagnlegt að skrifa fyrirfram niður allar spurningar og eins getur verið gott að skrifa niður punkta á meðan á læknisheimsókninni stendur. Verið óhrædd við að ræða opinskátt við lækninn um allt sem kann að valda áhyggjum.

Lyfjameðferð
Meðferð við parkinsonsjúkdómi felur alla jafna í sér lyfjameðferð. Lyfjameðferðin læknar ekki sjúkdóminn og heldur ekki aftur af framgangi hans en heldur niðri einkennum sem sjúkdómnum fylgja.
Einkennunum eru meðhöndluð með lyfjum sem koma í staðinn fyrir náttúrulegt dópamín í heilanum, MAO-B hemlar, dópamín agonistar og levódópa sem er lyf sem breytist í dópamín í heilanum.
Parkinsonsjúkdómurinn er mjög persónubundinn og fólk fær mismunandi einkenni og þess vegna þarf að stilla lyfjagjöfina fyrir hvern og einn. Það er mjög mikilvægt að taka lyfin inn á hárréttum tíma þar sem nokkrar mínútur til eða frá geta haft mikil áhrif á líðan. Margir nota áminningu í úri eða síma til að minna sig á að taka lyfin inn á réttum tíma.
Til að lyfjameðferðin verki sem best þarftu að láta taugalækninn vita hvaða einkenni eru til staðar, hvaða áhrif lyfin hafa á þig og hvort þú finnur fyrir aukaverkunum.
Með árunum geta áhrif lyfjanna minnkað. Þú gætir fundið fyrir sveiflum þar sem lyfin ná ekki að stjórna einkennunum eins vel og áður. Þá gætu aðrar meðferðir komið til greina, svo sem Duodopa lyfjadæla eða DBS skurðaðgerð en þessar meðferðir henta þó ekki öllum.

DBS skurðaðgerð
DBS (e. deep brain stimulation) er skurðaðgerð þar sem rafskautum er komið fyrir djúpt í kjarna heilans. Rafskautin frá orku frá rafhlöðu sem er sett undir húð á brjóstkassanum og líkist rafhlöðu fyrir hjartagangráð. Rafskautin eru tengd rafhlöðinni sem gefur stöðugan straum. Eftir aðgerðina eru rafskautin stillt og aðlöguð eftir þörfum.
DBS aðgerð eru möguleg meðferð þegar lyfjameðferð skilar ekki tilætluðum árangri en DBS hentar þó ekki öllum. Eins og með lyfjameðferð þá læknar DBS ekki parkinson né stöðvar framgang sjúkdómsins en heldur aftur af einkennunum. Búast má við að lyfjameðferð minnki umtalsvert eftir DBS aðgerð.
Taugalækningadeild Landspítalans hefur umsjón með DBS aðgerðunum en aðgerðirnar sjálfar fara í flestum tilfellum fram á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi.