Fyrstu einkenni

Fyrstu vísbendingar

Fyrstu einkenni geta verið minnkað lyktarskyn, stífleiki í vöðvum, „frosin öxl“ og ef til vill skjálfti í handlegg eða fótlegg þegar líkaminn er í hvíld. Í fyrstu koma einkennin aðallega fram í annarri hlið líkamans.

Önnur einkenni geta verið þreyta, depurð og framtaksleysi. Hægðatregða er algeng. Oft taka hlutirnir lengri tíma og skriftin minnkar. Fyrstu einkennin koma hægt fram og stundum tekur maki, fjölskylda eða vinir eftir breytingunum áður en viðkomandi veitir þeim athygli sjálf/ur.

Hvert á að leita?

Þegar grunur kviknar um parkinson eða annan taugasjúkdóm er fyrsti viðkomustaður ávallt hjá heimilislækni. Þeir sem ekki eru skráðir hjá heimilislækni geta haft samband við sína heilsugæslustöð og pantað næsta lausa tíma hjá lækni.

Gott að hafa í huga:

  • Taktu með maka eða annan náinn aðstandanda til læknisins
  • Skrifaðu niður þau atriði sem valda þér áhyggjum

Heilsugæslulæknir gerir viðeigandi athuganir og vísar fólki áfram þyki ástæða til þess. Sé þörf á frekari rannsóknum getur eitt af þrennu komið til greina: 

  • Endurkomutími á heilsugæslustöð
  • Tilvísun til taugalæknis á stofu
  • Tilvísun til dag- og göngudeildar taugalækningadeildar Landspítalans

Allt rannsóknarferlið þar miðar að því ganga úr skugga um hvort um parkinsonsjúkdóm sé að ræða og útiloka aðra sjúkdóma sem gætu valdið einkennunum.

Þegar greiningarferli er hafið eða þegar greining liggur fyrir getur fólk átt rétt á þjónustu frá sínu sveitarfélagi. Mismunandi er eftir sveitarfélögum hvaða þjónusta er í boði. Félagsþjónusta og heilsugæsla veita nánari upplýsingar um þá þjónustu sem býðst á hverjum stað fyrir sig. 

Parkinsonsamtökin veita ráðgjöf, stuðning og upplýsingar um hvað eina sem tengist parkinsonsjúkdómi. Ekki hika við að leita til okkar í síma 552-4440.

Stuðningur þinn skiptir öllu máli

Gerast vildarvinur

Vildarvinir Parkinsonsamtakanna eru þeir sem sem kjósa að styrkja starfið með mánaðarlegu framlagi að eigin vali.

Stakur styrkur

Með stöku framlagi aðstoðar þú okkur við að veita margvíslega þjónustu eins og að efla fræðslu, forvarnir, ráðgjöf og stuðning.

Gerast félagi

Félagsaðild er opin öllum sem hafa áhuga á starfsemi Parkinsonsamtakanna. Með félagsaðild styður þú starfsemi Parkinsonsamtakanna.

FÁÐU RÁÐGJÖF HJÁ FAGFÓLKI

Ráðgjafar okkar veita fræðslu, ráðgjöf og stuðning við fólk með parkinson, parkinsonskylda sjúkdóma og aðstandendur þess.