Fréttir af starfi Parkinsonfélags Akureyrar og nágrennis

Miðvikudaginn 25. október var fræðslufundur í Lionssalnum, Skipagötu 14 Akureyri. Andri Þór Sigurgeirsson sjúkraþjálfari á Reykjalundi var með fræðslu fyrir Parkinsongreinda og aðstandendur þeirra með áherslu á Parkinsongreinda. Andri talaði um mikilvægi hreyfingar og þjálfunar í baráttunni við Parkinson. Hann sagði frá nýjungum í hjálpartækjum sem m.a. eiga að auðvelda fólki gang.

  

Þriðjudaginn 7. nóvember var farið í heimsókn á Kristnes. Ingvar Þóroddsson endurhæfingarlæknir tók á móti hópnum og kynnti starfið á Kristnesi. Hafdís Hrönn Pétursdóttir iðjuþjálfi tók síðan við og kynnti hjálpartæki og hvert hægt er að leita með beiðnir.

  

Laugardaginn 25. nóvember var stjórnarfundur. Snorri Már Snorrason, fyrrverandi formaður Parkinsonsamtakanna, fundaði með stjórn félagsins. Snorri hafði miklu að miðla sem var mjög hvetjandi og uppörvandi fyrir stjórnarmenn.

Sunnudaginn 26. nóvember var haldinn árlegur jólafagnaður Parkinsonfélags Akureyrar og nágrennis í Lionssalnum, Skipagötu 14. Að þessu sinni var jólafagnaðurinn helgaður 30 ára afmæli félagsins sem var stofnað 2. maí 1987. Af því tilefni voru fyrrverandi formenn félagsins heiðraðir og þeim þakkað óeigingjarnt starf í þágu félagsins. Þetta voru þau Kristín Jóhannsdóttir, Einar Magnússon, Hilda Torfadóttir, Erna Jóhannsdóttir, Sigríður Stefánsdóttir og Kristján Gunnarsson sem öll voru mætt á jólafagnaðinn. Einnig var Sigurðar Jósepssonar frá Torfufelli minnst en hann var formaður félagsins frá 2000 til 2007.

  

Snorri Már Snorrason fyrrverandi formaður Parkinsonsamtakanna kom færandi hendi sem fulltrúi samtakanna með 100 þúsund krónur að gjöf í tilefni afmælisins. Parkinsonsamtökunum er þökkuð höfðingleg gjöf sem Parkinsonfélagið mun nýta vel í þágu félagsmanna.

Einnig var tækifærið notað, þetta kvöld, til að undirrita samstarfssamning milli Parkinsonsamtakanna og Parkinsonfélags Akureyrar og nágrennis. Parkinsonfélag Akureyrar og nágrennis hlakkar til samstarfsins við Parkinsonsamtökin og trúir því að saman séum við sterkari. Það er von okkar að með samstarfinu geti félagið betur sinnt hagsmunum félagsmanna og boðið upp á fjölbreyttari fræðslu og félagsstarf fyrir félagsmenn.