Fréttir að norðan

Parkinsonfélag Akureyrar og nágrennis hefur undanfarið staðið fyrir opnu húsi fyrsta fimmtudag í mánuði frá klukkan 14.00 til 16.00 að Undirhlíð 3 á Akureyri – fundarsalur á jarðhæð. Kynning á Takti miðstöð Parkinsonsamtakanna hefst kl. 14:30.

Fimmtudaginn 1. desember eigum við von á góðum gestum.

Erna Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Parkinsonsamtakanna og Ágústa Kristín Andersen forstöðumaður Takts ætla að kynna fyrir okkur það frábæra starf sem fer fram í Takti miðstöð Parkinsonsamtakanna í Lífsgæðasetri St. Jó sem er staðsett í gamla St. Jósepsspítala í Hafnarfirði. 

Það er von okkar í Parkinsonfélagi Akureyrar og nágrennis og Parkinsonsamtakanna að þetta frábæra starf geti teygt anga sína víðar um land svo við og fleiri getum notið góðs af.

Eftir áramót verður félagsmönnum í Parkinsonfélagi Akureyrar og nágrennis boðið upp á opið hús tvisvar í mánuði. Þessi viðbót væri þá væntanlega skref í þá átt að efla samstarfið og starf félagsins.