fbpx

Fræðsla og stuðningur


Stuðningsviðtöl

Parkinsonsamtökin eru í samstarfi við Guðrúnu Birnu Ólafsdóttur, félagsráðgjafa og fjölskyldufræðing. Hún starfar hjá Domus Mentis, Þverholti 14.

Boðið er upp á stuðningsviðtöl í gegnum síma eða fjarfundarbúnað fyrir einstaklinga, hjón/pör og fjölskyldufundi ef fleiri vilja koma saman. Ekki skiptir máli hvar í ferlinu einstaklingur eða fjölskylda er stödd þegar pantað er viðtal.

Hægt er að panta tíma hér eða með því að hringja í síma 581-1009. Þjónustan er félagsmönnum að kostnaðarlausu.


Fræðslufundir og ráðstefnur

Fræðslufundir eða ráðstefnur eru haldnir yfir vetrartímann. Allir fyrirlestrar eru auglýstir á viðburðadagatali okkar. 

Upptökur af öllum fræðslufundum og ráðstefnum sjá hér.


Parkinsonkaffi

Parkinsonkaffi er vettvangur fyrir fólk með parkinson og skylda sjúkdóma og aðstandendur þeirra. Tilgangurinn er að gefa fólki tækifæri til að koma saman og opna umræðu um sjúkdóminn.

Í ár höfum við fengið félagsmenn til að vera með stutta fræðslu um það sem þeir eru að fást við. Það getur til dæmis verið upplestur, hljóðfæraleikur, stutt umfjöllun eða kynning á einhverju áhugaverðu efni.

Ef þú hefur áhuga á að vera með fræðslu á Parkinsonkaffinu hafðu þá samband með tölvupósti á netfangið parkinsonsamtokin@gmail.com.

Parkinsonkaffi er fyrir fólk með parkinson og aðstandendur þeirra. Ekki þarf að skrá sig og aðgangur er ókeypis en tekið er á móti frjálsum framlögum í kaffisjóð.

Parkinsonkaffið er auglýst í viðburðadagatalinu.


Stuðningsnetið – Jafningjastuðningur

Parkinsonsamtökin eru aðili að Stuðningsnetinu sem byggir á faglegu og gæðastýrðu ferli við jafningjastuðning fyrir fólk sem glímir við sjúkdóma og aðstandendur þeirra.

Það getur verið hjálplegt að ræða við einhvern sem hefur gengið í gegnum svipaða reynslu og þú ert að ganga í gegnum, einhvern sem hefur þann skilning sem einungis fæst með því að upplifa hlutina sjálfur.

  • Hefur þú þörf fyrir að tala við aðra sem hafa verið í sömu aðstæðum?
  • Veltir þú fyrir þér hvernig aðrir hafa tekist á við að geinast með sjúkdóminn?
  • Ertu hugsi yfir því hvaða áhrif sjúkdómurinn muni hafa á daglegt líf þitt eða fjölskyldu þinnar?
  • Ertu aðstandandi og vilt ræða við aðra aðstandendur?

Sótt er um jafningjastuðning á www.studningsnet.is

Fagmenntaðir umsjónaraðilar velja skjólstæðingi stuðningsfulltrúa við hæfi að undangengnu viðtali og mati.

Stuðningurinn getur farið fram í síma, tölvupósti eða augliti til auglitis, samkvæmt samkomulagi skjólstæðings og stuðningsfulltrúa. 

Umsjónaraðilar afla endurgjafar um hvernig til tókst hjá bæði skjólstæðingi og stuðningsfulltrúa og grípa til viðeigandi ráðstafana ef frávik koma upp. 


Parkinsonsamtökin óska eftir sjálfboðaliðum sem vilja gerast stuðningsfulltrúar hjá Stuðningsnetinu. Óskað er eftir sjálfboðaliðum sem eru með parkinson eða skylda sjúkdóma eða aðstandendur. Það getur verið mjög gefandi að deila reynslu sinni, veita öðrum stuðning og láta gott af sér leiða. Ef þú vilt gerast stuðningsaðili þá getur þú haft samband með tölvupósti á netfangið parkinsonsamtokin@gmail.com eða skráð þig á www.studningsnet.is.

Verðandi stuðningsfulltrúi fer gegnum ítarlegt viðtal til að ganga úr skugga um hvort viðkomandi hefur unnið úr eigin málum og er í stakk búinn til að aðstoða aðra. 

Stuðningsfulltrúar sitja 2x 4 klukkustunda námskeið í jafningjastuðningi sem byggir á gagnreyndri fyrirmynd frá Krafti, stuðningsfélagi fyrir ungt fólk sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur þeirra. 

Stuðningsfulltrúar hljóta viðeigandi símenntun með reglulegu millibili.