fbpx

Fótbolti.net og listamaðurinn Tolli styðja Parkinsonsamtökin

Frá vinstri: Jóhann Rafnsson, gjaldkeri Parkinsonsamtakanna, Tolli, Þorsteinn Arnarson, hæstbjóðandi eins verkanna, Sigurbjörg Anna Símonardóttir fjármálastjóri Fótbolta.net og Vilborg Jónsdóttir, formaður Parkinsonsamtakanna.
Ljósmynd: Fótbolti.net – Birgir Viðar Halldórsson

Á dögunum stóðu Fótbolti.net og listamaðurinn Tolli fyrir uppboðum á nokkrum málverkum eftir þennan vinsæla listamann. Boðin voru upp þrjú Tollaverk og rann uppæðin óskert til Parkinsonsamtakanna. Lesendur vefsins tóku vel við sér, og söfnuðust 862.0000 kr. með uppboðunum.

Þau Vilborg Jónsdóttir og Jóhann Rafnsson, stjórnarmenn í Parkinsonsamtökunum tóku á móti styrknum. 

„Stuðningur af þessu tagi er ómetanlegur fyrir starfsemina enda skiptir hver króna máli. Stærsta verkefni samtakanna núna er að koma upp sérstöku setri fyrir parkinsonsjúklinga þar sem þeir fá viðeigandi þjálfun og uppbyggingu og geta þannig spornað við sjúkdómnum”, segir Vilborg Jónsdóttir formaður Parkinsonsamtakanna. 

Það vakti athygli í síðasta vináttulandsleik Íslands á móti Gana þegar 11 parkinsonsjúklingar gengu inn á völlinn ásamt landsliðum landanna tveggja. 

„Með hjálp KSÍ og íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu hófum við vitundarvakningu um parkinsonsjúkdóminn í leik Íslands við Gana. Því miður erum við íslendingar ekki aðeins á toppnum á okkar fótboltaferli, heldur er Ísland í 2. sæti yfir dánartíðni parkinsonsjúklinga í heiminum,” segir Vilborg ennfremur. 

Frá vinstri: Tolli, Valdís Þórðardóttir og Ingimar Elí.
Mynd: Fótbolti.net – Birgir Viðar Halldórsson

Hæstbjóðendur verkanna þriggja voru sömuleiðis mjög ánægðir með að styðja við þetta verðuga verkefni. Það má segja að sjaldan falli eplið (boltinn) langt frá eikinni en einn af hæstbjóðendunum er Valdís Þórðardóttir, dóttir Þórðar Guðjónssonar knattspyrnukappa af Akranesi og frænka Björns Bergmanns Sigurðarsonar landsliðsmanns sem tók þátt í HM. 

Parkinsonsamtökin eru þakklát fyrir velvild Tolla og Fótbolta.net en söfnunarféð mun renna beint í uppbyggingu Parkinsonseturs og bæta aðstöðu fyrir fólk með parkinsonsjúkdóminn og aðstandendur þeirra.