fbpx

Alþjóðlegi parkinsondagurinn 11. apríl

Parkinsonlið í wow cyclothon
Núna í ár verður í fyrsta sinn parkinsonlið í wow cyclothon. Hjólakeppnin hefst í Reykjavík 26. júní og liðin hafa 72 klukkustundir til að hjóla hringinn í kringlum landið og klára keppni. Parkinsonliðið er skipað 10 einstaklingum, þar af eru 5 með parkinsonsjúkdóminn. Liðsmenn koma frá Írlandi,  Kanada Skotlandi og Íslandi. Íslensku keppendurnir eru Snorri Már Snorrason, fyrrum formaður Parkinson-samtakanna og félagi hans, Birgir Birgisson. Liðið æfir nú af kappi fyrir keppnina og við hvetjum alla til að fylgjast með Facebook síðu liðsins: Biking Around Iceland.

Alþjóðlegi parkinsondagurinn 11. apríl á Bessastöðum og í Nauthólsvík
Alþjóðlegi parkinsondagurinn verður haldinn hátíðlegur fimmtudaginn 11. apríl. Við ætlum að tileinka daginn parkinsonliðinu í wow cyclothoninu. Dagskráin hefst við kirkjuna á Bessastöðum kl. 13.00 þar sem forsetinn eða forsetafrúin ætla að kasta kveðju á hópinn. Síðan munu Snorri Már og Birgir hjóla rólega frá Bessastöðum að Nauthólsvík og bjóða öllum sem hafa áhuga að slást með í hópinn. Þeir munu fylgja hópnum alveg eftir og enginn verður skilinn eftir þó hægt fari. Þeir sem vilja ekki hjóla geta hitt hópinn á Kaffi Nauthól en dagskráin hefst þar kl. 14.00 þar sem Svavar Knútur og Kristjana Stefánsdóttir munu sjá um tónlistina á meðan gestir njóta kaffiveitinga. Síðan munu Birgir og Snorri segja frá cyclothoninu og kynna parkinsonliðið.
Aðgangseyrir 1.500 kr. og kaffiveitingar í boði. Engin þörf að skrá sig – bara mæta. Við hvetjum alla félagsmenn til að fjölmenna á Bessastaði og eiga svo með okkur notalega stund á Kaffi Nauthól.