Aðalfundur PAN 2018

Parkinsonfélag Akureyrar og nágrennis hélt aðalfund sinn laugardaginn 10. mars s.l. Rúmlega tuttugu félagar sóttu fundinn sem  hófst á því að formaðurinn kynnti skýrslu stjórnar fyrir síðasta starfsár. Bar þar hæðst þrjátíu ára afmæli félagsins sem minnst var á árlegum jólafagnaði í nóvember. Kynningafundur var haldinn á Sauðárkróki, fræðslufundur með Andra Þór Sigurgeirssyni sjúkraþjálfara, fræðslufundur með Einari Gylfa Jónssyni sálfræðingi, heimsókn á Kristnes og Feldenkrainsnámskeið með Sybil Urbancic. Gjaldkerinn fór síðan yfir endurskoðaða reikninga næstliðins árs og sagði gjöld vera umfram tekjur að þessu sinni. Aukin útgjöld rakti hann til þrjátíu ára afmælis félagsins en væntanlega yrði næst haldið upp fjörutíu ára afmæli eftir tíu ár.
Næst fór fram kosning formanns, tveggja stjórnarmanna til tveggja ára og varamanns. Arnfríður Aðalsteinsdóttir var endurkjörinn formaður og stjórnarmenn kjörnir Ragnar Emilsson og Anna Kristinsdóttir, Bergmundur Stefánsson var kjörinn varamaður. Auk þeirra eiga sæti í stjórn Eiríkur Jónsson og Guðrún Hafdís Óðinsdóttir sem aðalmenn og Heiða Björk Jónsdóttir sem varamaður. Því næst var Óskar Þór Sigurbjörnsson kjörinn skoðunarmaður reikninga til tveggja ára en Kristján Gunnarsson er á sínu seinna ári í því embætti. Fundinum lauk svo á söng og almennum umræðum um málefni félagsins og framtíðina.