Stór áfangi í baráttunni við Parkinsonsjúkdóminn

Frétt á Pressunni.
Vísindamenn í Lundi í Svíþjóð hafa hugsanlega fundið nýja og áhrifaríka aðferð til að lækna þá sem þjást af Parkinsonsjúkdómnum. Aðferðin gengur út á að örva heilann þannig að hann hjálpar sjálfum sér.
Parkinsonveikin lýsir sér í að taugafrumur, sem framleiða dópamín, sem stýra hreyfingum fólks, rýrna. Fram að þessu hafa rannsóknir vísindamanna aðallega beinst að því að bjarga þessum taugafrumum eða endurstilla þær.
Vísindamenn við háskólann í Lundi hafa nú prófað sig áfram með algjörlega nýja aðferð sem gengur út á að örva prótín sem gegnir mikilvægu hlutverki í varnarkerfi heilans. Með því að örva þetta sérstaka prótín fer keðjuverkun af stað sem stöðvar framgang sjúkdómsins og kemur hreyfigetunni sem hefur tapast aftur í lag. Hægt er að segja að allsherjarvarnir heilans hafi verið gangsettar með þessu ferli.
Angela Cenci-Nilsson, prófessor, sagði í samtali við Sænska ríkisútvarpið að á tilraunum á músum hafi þær náð næstum því fullum bata á fimm vikum. Þær hafi fengið aftur hreyfigetuna sem Parkinsonssjúkdómurinn hafi verið búinn að eyðileggja.
Parkinsonssjúkdómurinn veldur tjóni á taugafrumunum sem framleiða dópamín og varnarkerfi heilans. Cenci-Nilsson sagði að þess vegna væri mikilvægt að finna meðferðir sem styrkja þessa starfsemi. Prótíníð sem sænsku vísindamennirnir notuðu hefur áður reynst koma að góðu gagni gegn heilablæðingum og fleiru en hefur aldrei áður verið prófað í tengslum við Parkinsonsjúkdóminn.
Efnin sem eru notuð til að örva þetta prótín hafa verið samþykkt til prófunar á alzheimerssjúklingum í Bandaríkjunum og það þýðir að það ætti að vera hægt hefja tilraunir nú þegar á parkinsonsjúklingum. Cenci-Nilsson sagði að hægt væri að hefja tilraunir ef fjármagn væri fyrir hendi.

Lesa frétt á Pressunni
.