Skorum á stjórnvöld

Öryrkjabandalag Íslands heldur áfram herferð sinni til að tryggja fötluðu fólki mannréttindi til jafns við aðra í samfélaginu. Herferðin er í formi undirskriftasöfnunar þar sem skorað er á stjórnvöld að fullgilda samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks (SRFF) á haustþingi 2015. Öryrkjabandalagið hefur í mörg ár barist fyrir því að samningurinn verði fullgiltur og lögfestur en hann var undirritaður af Íslands hálfu í mars árið 2007. Nú hafa 156 ríki fullgilt hann og er Ísland annað tveggja Norðurlanda sem ekki hafa fullgilt samninginn. Finnland er hitt norræna ríkið sem er að ljúka vinnu við fullgildingu um þessar mundir.

SRFF er alþjóðasamningur sem felur í sér skyldur aðildarríkja til að tryggja réttindi fatlaðs fólks. Hann markar tímamót í allri mannréttinda- og frelsisbaráttu fatlaðs fólks. Undirritun Íslands felur í sér að ríkið skuli ekki ganga gegn sáttmálanum og hugtakið „fullgilding“ þýðir að Ísland hefur formlega gerst aðili að samningnum á alþjóðavettvangi.

Samningurinn er óháður skerðingu einstaklingsins, kyni og aldri og er leiðarvísir að því hvernig tryggja skal fötluðu fólki sömu mannréttindi og tækifæri í lífinu og öðrum. Samkvæmt framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks átti að leggja fram frumvarp á vorþingi Alþingis 2013 til fullgildingar SRFF en það hefur ekki ennþá verið gert. Eru mannréttindi kannski ekki forgangsmál á Íslandi?