Skemmtiferðin á fullri ferð

Snorri Már Snorrason, fyrrverandi formaður Parkinsonsamtakanna, greindist með Parkinsonsjúkdóminn fyrir 12 árum síðan. Með markvissri hreyfingu hefur Snorri náð að sporna við framgangi sjúkdómsins. Svo vel að hann hjólar allt árið, fer í ræktina á hverjum degi og vinnur fullan vinnudag. Þar sem aukin hreyfing hefur reynst Snorra svo vel í baráttunni við Parkinsonsjúkdóminn þá vill hann hvetja aðra til að hreyfa sig til að viðhalda góðri heilsu. Með það að markmiði stofnaði hann Skemmtiferðina árið 2012 og hefur hjólað langar vegalendir undir merkjum Skemmtiferðarinnar á hverju sumri síðan.

Sunnudaginn 12. júní sl. lagði hann af stað í fimmtu Skemmtiferðina frá Blönduósi og ætlar að hjóla alla leiðina til Egilsstaða, um Siglufjörð, Dalvík, Húsavík, Sléttu og Vopnafjörð. Markmiðið er að komast til Egilsstaða fyrir lok júní. Ferðin gengur vel og hann er núna kominn Bakkafjörð og aðeins þrír dagar eftir en það verða mjög krefjandi dagar þar sem mikið er um brekkur á þessari til Egilsstaða.

Í fyrri Skemmtiferðum hefur Snorri Már hjólað hringinn í kringum Ísland árið 2012, milli Reykjavíkur og Ísafjarðar árið 2013, Vestfjarðahringinn árið 2014 og Suðurnes og Suðurland árið 2015.

Skemmtiferðin er ekki keppnisferð nema til að sigrast á eigin takmörkunum og um leið að bæta heilsuna og auka lífsgæði. Öllum er velkomið að slást með í för hvar og hvenær sem er og hjóla þá vegalengd sem hver og einn vill. Hægt er að fylgjast með og sjá hvar Skemmtiferðin er staðsett á Facebook síðunni. En þeir sem hafa ekki tækifæri til að hjóla með Snorra geta samt sem áður tekið þátt einfaldlega með því að hreyfa sig meira en vanalega á meðan á Skemmtiferðinni stendur. Þátttökumöguleikarnir eru fjölmargir, allt frá markvissri þjálfun yfir í hversdagslegri hluti eins og að leggja bílnum lengra frá búðinni, ganga stigana í stað þess að nota lyftuna, fara einu skrefi lengra í dag en í gær.

Snorra þætti gaman að heyra frá þeim sem ætla að nýta hvatningu Skemmtiferðarinar og stunda hreyfingu á meðan á ferðinni stendur í júnímánuði. Það er líka mesta hvatningin sem hann getur fengið á þessari löngu leið. Til að taka þátt og hvetja Snorra áfram þarf bara að merkja færslur og myndir á Facebook eða Instagram með myllumerkinu #skemmtiferdin.