Skemmtiferðin 2014. Þín hreyfing – þinn styrkur

Skemmtiferðin fer Vestfjarðahringinn og þér er boðið með!

Snorri Már Snorrason, formaður Parkinsonsamtakanna, ætlar að leggja af stað í Skemmtiferðina sem er hjólaferð um Vestfirði dagana 5. til 19. júlí. Líkt og aðrar álíka ferðir þá er hún farin til styktar góðu málsefni en málefnið sem Skemmtiferðin styður þarfnast þíns styrks. Þú styður Skemmtiferðina með því að hreyfa þig meira en venjulega. Þú getur til dæmis farið í sund, gengið stigana í stað þess að taka lyftuna, lagt bílnum lengra frá búðinni eða farið í kvöldgöngu. En allt sem þú gerir, gerirðu fyrir þig. Það er fólk um allt land sem getur ekki hreyft sig vegna sjúkdóma eða slysa og vildu gjarna. Nýtum því hreyfigetu okkar í virðingarskyni við þá sem ekki geta.

Snorri Már ætlar að hjóla þessa tæpu 800 km á tveimur vikum. Hann verður fimmtugur í haust en hann greindist með Parkinsonsjúkdóminn fyrir 10 árum og hefur viðhaldið líkamlegu þreki og úthaldi með líkamsrækt og hjólreiðum síðan þá. Hann segir á Facebook siðu Skemmtiferðarinnar: „Ég veit að brekkurnar sem ég þarf að kljást við eru ekki allar í fjallshlíðunum, það eru líkamlegir hjallar að klífa og andlegir dalir að skríða. Líkt og áður hef ég ekki hugmynd um það hvort ég komist en ég ætla að láta reyna á það hvað ég get.”

Snorri hjólaði hringinn í kringum landið eftir þjóðvegi 1 undir merkjum Skemmtiferðarinnar árið 2012 og nú ætlar hann að fara Vestfjarðahringinn. Við sendum Snorra baráttukveðjur og óskum honum góðrar ferðar. Hægt er að fylgjast með ferðinni á Facebook síðu Skemmtiferðarinnar.

 

Skemmtiferdin.