Félagsstarf

Félagsstarf Parkinsonsamtakanna byggist upp á reglulegum kóræfingum og Parkinsonkaffi ásamt námskeiðum og öðrum viðburðum sem fara eftir áhuga félagsmanna hverju sinni.

Yfir vetrartímann eru kóræfingar hjá Parkinsonkórnum alla miðvikudaga kl. 17.00 í húsnæði Parkinsonsamtakanna í Setrinu, Hátúni 10, 1. hæð. Kórinn er fyrst og fremst hugsaður sem regluleg raddþjálfun sem er nauðsynleg til að viðhalda eða til að ná upp góðum raddstyrk. Kórinn er fyrir alla Parkinsongreinda og aðstandendur þeirra og engin krafa um reynslu eða kunnáttu í söng.

Fyrsta og þriðja fimmtudag í hverjum mánuði yfir vetrartímann er Parkinsonkaffi kl. 17.00 í Setrinu, Hátúni 10, 1. hæð. Í Parkinsonkaffinu er ýmist boðið upp á fræðslu eða samverustundir þar sem fólk fær gott tækifæri til að ræða við fólk sem stendur í svipuðum sporum. Efni fundanna er auglýst á heimasíðu og á Facebook-síðu Parkinsonsamtakanna. Parkinsonkaffið er bæði fyrir Parkinsongreinda og aðstandendur. Verið velkomin.

Á hverjum fimmtudegi kl. 21.00 er Dj Vilborg með þátt á netútvarpsstöðinni Radio Parkies en þetta er eina útvarpsstöðin í heiminum sem er tileinkuð Parkinsonsamfélaginu. Vilborg fjallar oft um Parkinsonsamtökin í þættinum sínum en þetta er frábær leið til að fá fréttir fyrir fólk sem býr utan höfuðborgarsvæðisins eða að öðrum orsökum getur ekki mætt á fundi hjá samtökunum. Í þættinum er líka spiluð góð tónlist og hægt er að senda Vilborgu tölvupóst til að senda kveðjur eða biðja um óskalög eða til að láta hana vita af áhugaverðu efni til að segja frá í þættinum. Netfangið hjá Vilborgu er vilborg61@gmail.com.
Til þess að hlusta á þáttinn er hægt að smella hér og síðan er smellt á „Play this radiostation“ sem er ofarlega á síðunni, hægra megin. Þátturinn hjá Vilborgu hefst kl. 21.00 öll fimmtudagskvöld.
Það er hægt að hlusta á upptökur af öllum útvarpsþáttunum á Radio Parkies eftir á með því að smella hér. Þarna er listi yfir alla þættina, þar á meðal þættina hennar Vilborgar.

Allir viðburðir koma fram á viðburðardagatali Parkinsonsamtakanna..

Parkinsonsamtökin bjóða upp á jafningjastuðning fyrir Parkinsongreinda og/eða aðstandendur. Það getur verið gott og nauðsynlegt að fá ræða við fólk sem þekkir sjúkdóminn af eigin raun. Hægt er að panta jafningjastuðningsviðtal á skrifstofunni í síma 552-4440 eða með því að senda tölvupóst á parkinsonsamtokin@gmail.com.