Rannsókn um íþróttasiðferði og heiðarleika

Dr. Guðmundur Sæmundsson aðjunkt við Háskóla Íslands og doktor í íþróttafræðum er ásamt fleirum að vinna að rannsókn um íþróttasiðferði og heiðarleika. Nú er verið að safna fólki sem er tilbúið til að taka þátt í rannsókninni, minnst 2.000 manns úr ýmsum lögum samfélagsins, 18 ára og eldri. Þátttakendur svara 40 spurningum um málefnið sem tekur 15-20 mínútur. Það vantar sárlega þátttakendur úr hópi öryrkja en oft gleyma rannsakendur að leita álits þeirra þegar afstaða fólks er könnuð. Íþróttir eru án alls vafa mikilvægur þáttur í samfélagi okkar, bæði sem uppeldistæki og forvarnartól og sem afl til samstöðu og þjóðarvitundar, auk skemmtanagildis. Það er afar mikilvægt að fá sem stærstan og breiðastan hóp til að taka þátt í rannsókninni því að tilgangurinn með henni er að fá í hendur áreiðanlegar upplýsingar um skoðanir fólks og vilja til að unnt verði að auðga og nýta íþróttastarfið til góðra hluta og losa það við lesti og neikvæða sprota sem nokkuð hefur borið á í umræðunni. Einnig þurfa þeir sem móta stefnuna í íþróttamálum, þar á meðal fjárveitingar opinberra aðila, á sem bestum gögnum að halda um vilja þjóðarinnar.

Til þess að taka þátt er sent þátttökusamþykki með tölvupósti til Guðmundar á netfangið gsaem@hi.is þar sem fram kemur nafn, sími, netfang, starfsheiti og aldur. Einfaldara getur það ekki verið!

Til að fá nánari upplýsingar og fylgjast með eruð þið velkomin inn á Facebook síðu rannsóknarinnar: https://www.facebook.com/rannsokn/.