Hvatningarverðlaun ÖBÍ 2014: Verðlaunahafar

Á alþjóðadegi fatlaðra þan 3. desember sl. voru Hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands veitt í áttunda sinn. Snorri Már Snorrason, formaður Parkinsonsamtakanna, var tilnefndur til verðlaunanna fyrir „Skemmtiferðina. Þín hreyfing – þinn styrkur“. Megin tilgangur verðlaunanna er að varpa ljósi á þá sem hafa með jákvæðum hætti stuðlað að einu samfélagi fyrir alla. Snorri Már hefur svo sannarlega lagt sitt af mörkum með Skemmtiferðunum árin 2010 og 2014 og við óskum honum innilega til hamingju með tilnefninguna.

Að þessu sinni hlutu eftirtaldir verðlaunin:

Í flokki einstaklinga:
Ólafur Ólafsson, fyrir að helga líf sitt íþróttum fatlaðs fólks.

Í flokki fyrirtækja/stofnana:
Háskóli Íslands, fyrir starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun.

Í flokki umfjöllunar/kynningar:
Arnar Helgi Lárusson, fyrir frumkvæði að átakinu „Aðgengi skiptir máli“.

Tilnefndir voru:

Í flokki einstaklinga:

  • Ólafur Helgi Móberg, fyrir að láta ekki fordóma hindra sig í lífi og starfi.
  • Ólafur Ólafsson, fyrir að helga líf sitt íþróttum fatlaðs fólks.
  • Snorri Már Snorrason, fyrir verkefnið „Þín hreyfing – þinn styrkur“.

Í flokki fyrirtækja/stofnana:

  • Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, fyrir ritun bókarinnar „Litróf einhverfunnar“.
  • Háskóli Íslands, fyrir starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun.
  • Vin – athvarf, fyrir rekstur athvarfs fyrir fólk með geðraskanir.

Í flokki umfjöllunar/kynningar:

  • Arnar Helgi Lárusson, fyrir frumkvæði að átakinu „Aðgengi skiptir máli“.
  • Borgarleikhúsið, fyrir að opna heim leikhússins fyrir fötluðu fólki.
  • Embla Guðrúnar Ágústsdóttir og Guðrún Hjartardóttir, fyrir erindi sitt „Af hverju er barnið mitt ekki úti að éta sand?“.

Verndari verðlaunanna er Forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson. Hönnuður verðlauna er Þórunn Árnadóttir, vöruhönnuður.